Skipulagsráð

428. fundur 14. ágúst 2024 kl. 08:15 - 12:00 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Heimir Örn Árnason
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur
  • Einar Sigþórsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá
Heimir Örn Árnason D-lista sat fundinn í forföllum Þórhalls Jónssonar.
Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sat fundinn í forföllum Sifjar Jóhannesar Ástudóttur.

1.Breyting á aðalskipulagi - Reitur VÞ13 eða Naustagata 13

Málsnúmer 2024080332Vakta málsnúmer

Með vísun í afgreiðslu skipulagsráðs á fundi 10. júlí 2024 er lögð fram tillaga að lýsingu aðalskipulagsbreytingar sem nær til verslunar- og þjónustusvæðis merkt VÞ13.

Í lýsingunni kemur fram að á svæðinu verði heimilt að vera með blandaða byggð verslunar- og þjónustu og íbúðarsvæðis. Er miðað við að hús geti verið allt að 5 hæðir og að íbúðir verði á efri hæðum.


Halla Björk Reynisdóttir L-lista bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hún af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.

Meirihluti skipulagsráðs gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

2.Holtahverfi við Miðholt - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2024060172Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni kynningu skipulagslýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna Miðholts og Hlíðarbrautar 4. Athugasemdafrestur rann út 17. júlí 2024. Tuttugu athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Norðurorku og Skipulagsstofnun.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samvinnu við umsækjanda. Að mati ráðsins er nauðsynlegt að sjá nánari tillögu að útfærslu fyrirhugaðrar uppbyggingar áður en ákvörðun verður tekin um framhald málsins. Í þeirri tillögu þarf að gera grein fyrir hvernig koma má til móts við þær athugasemdir sem bárust við kynningu lýsingar.

3.Holtahverfi - breyting á aðalskipulagi vegna hjúkrunarheimilis

Málsnúmer 2024070455Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til hluta íbúðarsvæðis austan Krossanesbrautar, merkt ÍB18. Í breytingunni felst að á svæði við Þursaholt verði heimilt að byggja hjúkrunarheimili auk þjónustu fyrir eldri borgara ásamt íbúðum. Verður uppbyggingin í samræmi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna.

Lýsing aðalskipulagsbreytingarinnar var í kynningu til 7. ágúst sl. og bárust umsagnir frá Minjastofnun Íslands, Norðurorku og Skipulagsstofnun.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna drög að tillögu að breytingu á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

4.Austursíða 2, 4 og 6 - umsókn um breytingu á aðalskipulagi

Málsnúmer 2023090795Vakta málsnúmer

Drög að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir Austursíðu 4 voru kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 19. júní til og með 12. júlí 2024. Í breytingunni felst að landnotkun á svæði sem nær til lóða við Austursíðu 2, 4 og 6 breytist úr athafnasvæði í verslun- og þjónustu. Er gert ráð fyrir blandaðri landnotkun á svæðinu með heimild fyrir íbúðum á efri hæðum og miðað við að íbúðarhús geti verið allt að 5 hæðir.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á villu í texta.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins verði auglýst með fyrirvara um lagfæringar á texta um hæðir húsa skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Hlíðarendi land 4 - Umsókn um skipulag

Málsnúmer 2024071470Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 29. júlí 2024 þar sem að Ólafur Stefánsson óskar eftir aðalskipulagsbreytingu fyrir óbyggt svæði við Hlíðarfjallsveg sem nær frá Hlíðarenda í vestri og austur að starfsstöð Terra. Er óskað eftir að um 3,1 ha svæðisins (vesturhluti) verði breytt í frístundabyggð og um 3,7 ha (austuhluti) í atvinnusvæði. Er gert ráð fyrir að deiliskipulag fyrir svæðið verði unnið samhliða breytingu á aðalskipulagi.


Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að boða umsækjanda á næsta fund skipulagsráðs.

6.Gleráreyrar 2 til 8 - Umsókn um breytingu á skipulagi

Málsnúmer 2024040964Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að breytingu á deiliskipulagi verksmiðjusvæðis á Gleráreyrum sem nær til lóða við Gleráreyrar 2-8 auk hluta af bílastæði sunnan við Glerártorg. Er breytingin til samræmis við tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið sem er nú í vinnslu. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir byggingu 5 fjölbýlishúsa á 6-9 hæðum fyrir allt að 120 íbúðir auk endurskipulagningar á bílastæðum við Glerártorg. Er miðað við að það verði atvinnustarfsemi á 1-2 hæð húsa en íbúðir á efri hæðum.
Skipulagsráð samþykkir að fyrirliggjandi drög að deiliskipulagi verði kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða kynningu á breytingu á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, með fyrirvara um minniháttar lagfæringar í samráði við skipulagsfulltrúa. Þarf sérstaklega að huga að umbótum á aðgengi gangandi og hjólandi um lóð Glerártorgs.

7.Hjúkrunarheimilið Hlíð - skipting lóðar

Málsnúmer 2024080401Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að skiptingu lóðarinnar Austurbyggð 17 í tvær lóðir. Lóðin er í dag skráð 21.812,9 fm að stærð og gerir tillagan ráð fyrir að afmörkuð verði ný 6.275,3 fm lóð utan um núverandi raðhús og bílastæði þar sunnan við.
Skipulagsráð samþykkir að gera breytingu á deiliskipulagi Hjúkrunarheimilisins Hlíðar til samræmis við fyrirliggjandi tillögu að skiptingu lóðarinnar. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á grenndarkynningu þar sem eingöngu er verið að breyta lóðarmörkum.

8.Hesjuvellir - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024071442Vakta málsnúmer

Fyrirspurn dagsett 26. júlí 2024 þar sem að Kristín Jóhannesdóttir óskar eftir skoðun á breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð Hesjuvalla, neðan við veg vegna auglýsingar á lóð til sölu.
Skipulagsráð frestar erindinu og felur skipulagsfulltrúa að ræða við landeigendur um fyrirhugaðar breytingar.
Fylgiskjöl:

9.Aðalstræti 13 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu og lóðarstækkun

Málsnúmer 2024070930Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. júlí 2024 þar sem að Ingvar Ívarsson fh. Stefáns Þórs Gestssonar óskar eftir deiliskipulagsbreytingu og jafnframt lóðarstækkun.

Breytingin felur í sér að lóðin er stækkuð til austurs að Duggufjöru og bætt er við byggingarreit innan lóðar fyrir bílageymslu með mænisþaki.
Skipulagsráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi með lóðarstækkun til samræmis við aðliggjandi lóðir. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkir að hún verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Aðalstrætis 15 auk þess sem leitað verði umsagnar Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasviðs. Er samþykktin með fyrirvara um samþykki meðeigenda.

10.Háhlíð 4 - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024070822Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn Önnu Þóru Ísfoldar Rebekkudóttur, dagsett 8. júlí 2024, um hvort að útbúa megi viðbótarbílastæði fyrir Háhlíð 4 meðfram Höfðahlíð og jafnframt skipta húsinu í tvær fasteignir. Felur þetta í sér stækkun á lóð um 12,5-25 fm. Er erindið lagt fram í framhaldi af afgreiðslu skipulagsráðs frá 12. júní 2024 þar sem því var hafnað að breyta íbúðarhúsinu í tvíbýlishús vegna skorts á bílastæðum.
Skipulagsráð hafnar því að stækka lóðina þannig að koma megi fyrir bílastæðum á svæði suðaustan við núverandi lóð með aðkomu frá Höfðahlíð.

11.Norðurgata 1 - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024070601Vakta málsnúmer

Erindi Svartra bóka ehf. dagsett 3. júlí 2024 um hvort að heimilt yrði að nýta fyrstu hæð Norðurgötu 1 á Oddeyri undir fornbókabúð og undir viðburði, kjallara sem geymslu og risið sem íbúð.
Lóðin er á svæði sem í aðalskipulagi er skilgreint sem íbúðarsvæði og kemur fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði en að þar megi einnig vera starfsemi sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis og muni ekki valda óþægindum vegna mengunar eða umferðar, svo sem verslunum, þjónustustarfsemi, leiksvæðum og hreinlegum iðnaði. Að mati skipulagsráðs samræmist starfsemi bókaverslunar ákvæðum aðalskipulagsins en forsenda leyfisveitingar er að gerð verði breyting á deiliskipulagi svæðisins. Skipulagsráð bendir á að ef nýta á húsnæðið í atvinnustarfsemi þarf að huga sérstaklega að aðgengismálum.

12.Bakkahlíð 6 - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024080199Vakta málsnúmer

Fyrirspurn Ingva Þórs Sigurðssonar, dagsett 6. ágúst 2024, um heimild til að reisa 14,7 fermetra geymsluskúr norðan bílskúrs á lóð Bakkahlíðar 6. Yrði skúrinn um 0,5 - 0,7 m frá lóðarmörkum Bröttuhlíðar 5 og u.þ.b. 1 meter frá gangstíg að austanverðu.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna áformin skv. 44. gr skipulagslaga 123/2010. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Bröttuhlíðar 5 þegar fullnægjandi gögn liggja fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

13.Gránufélagsgata 22 - Umsókn um skipulag

Málsnúmer 2024080257Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. ágúst 2024 þar sem að Stefán Ármann Hjaltason óskar eftir að fá að breyta deiliskipulagi fyrir Gránufélagsgötu 22. Er óskað eftir að heimilt verði að rífa núverandi hús á lóð og endurbyggja frá grunni með því skilyrði að varðveita form hússins, þ.e. hlutföll, gluggaskipan og þakgerð. Er einnig óskað eftir heimild til að hliðra húsinu til suðurs þannig að hún verði 3,5 m frá suðurlóðarmörkum. Er skýringaruppdráttur meðfylgjandi. Til viðbótar er óskað eftir breytingu á nýtingarhlutfalli úr 0,59 í 0,49.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi sem felur í sér að núverandi hús verði rifið og endurbyggt sunnar á lóðinni sbr. umsögn Minjastofnunar Íslands. Er ekki fallist á breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á grenndarkynningu þar sem fyrir liggur að eigendur þeirra húsa sem hefðu átt að fá kynninguna hafa þegar lýst yfir með undirskrift sinni að þeir gera ekki athugasemd við fyrirhugaða breytingu. Leita þarf umsagnar Minjastofnunar Íslands um breytinguna.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

14.Kjarnagata 2 - umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi - umfangsflokkur 3

Málsnúmer 2024070903Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. júlí 2024 þar sem Gunnar Örn Sigurðsson f.h. Haga hf. sækir um byggingaráform og byggingarleyfi fyrir sjálfsafgreiðslustöð eldsneytis á lóð nr. 2 við Kjarnagötu. Innkomin gögn eftir Gunnar Örn Sigurðsson.

Byggingarfulltrúi óskar umsagnar skipulagsráðs um erindið.
Að mati skipulagsráðs samræmist tillagan ekki gildandi deiliskipulagi og er ekki samþykkt að gerð verði breyting á því til samræmis við fyrirliggjandi gögn.

15.Hlíðarholt - ósk um að staðsetja 16m fjarskiptamastur

Málsnúmer 2024060972Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 13. júní 2024 þar sem Sigurður Lúðvík Stefánsson fh. Íslandsturna sendistaða óskar eftir leyfi til að reisa 16 m hátt fjarskiptamastur auk rafmagnskassa norðan við spennistöð Norðurorku við Safírstræti í hesthúsahverfinu Hlíðarholti.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að heimila umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við Norðurorku, sem felst í að afmarkaðar eru lóðir fyrir núverandi spennistöð og fyrirhugað mastur. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum á svæðinu auk þess sem leitað verður umsagnar Hestamannafélagsins Léttis og Isavia.

16.Súluvegur/Miðhúsabraut - fyrirspurn um lóð

Málsnúmer 2017030103Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar dagsett 8. ágúst 2024 vegna lóðar við Súluveg fyrir dýraspítala sem úthlutað var 10. ágúst 2022.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að ræða málið við umsækjanda og Slökkvilið Akureyrar.

17.Leikvöllur Grenilundur - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2024071264Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. júlí 2024 þar sem að Jón Birgir Gunnlaugsson fh. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar sækir um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum leikvelli syðst í Grenilundi.
Skipulagsráð samþykkir fyrirhugaða framkvæmd og telur ekki þörf á framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni enda er hún í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

18.Hesjuvellir - ósk um hnitsetningu lóðarmarka

Málsnúmer 2024070882Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. júlí 2024 þar sem að Jóhannes Már Jóhannesson fh. Vallabúsins ehf. óskar eftir því að ráðist verði í það að klára hnitsetningu lóðarmarka Hesjuvalla að landi Akureyrarbæjar. Jóhannes leggur til að farin verði auðveldasta leið þar sem lóðin verði hnitsett eftir girðingu sem aðskilur lóð Hesjuvalla frá landi Akureyrarbæjar í stað þess að hnitsetja samkvæmt læknum eins og áður var gert.
Skipulagsráð vísar málinu til skoðunar hjá umhverfis- og mannvirkjasviði.

19.Krossaneshöfn - fyrirspurn vegna lóðar fyrir síló og hafnarvog

Málsnúmer 2022030078Vakta málsnúmer

Með umsókn dagsettri 2. mars 2022 óskaði Margrét Konráðsdóttir, fh. Skútabergs ehf. eftir lóð til uppsetningar sílóa við Krossaneshöfn. Í kjölfarið fór í gang vinna við breytingu á deiliskipulagi Krossaneshafnar í samráði við Hafnasamlag Norðurlands og Norðurorku. Þann 17. júlí sl. tók í gildi breyting á deiliskipulagi þar sem afmörkuð er 0,22 ha lóð fyrir sement- og asfaltbirgðastöð og bílavog.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að vinna drög að samningi um úthlutun lóðarinnar og leggja aftur fyrir ráðið. Skipulagsráð telur jafnframt afar mikilvægt að sett verði í skilmála við lóðarúthlutun að umgengni á lóðinni skuli vera til fyrirmyndar og að á henni séu alls ekki tæki eða tól sem ekki tengjast sílói eða hafnarvog og að það verði tilgreint nákvæmlega hvaða tæki/tól það eru sem samræmast þeirri starfsemi. Einnig verði tilgreint nákvæmlega hvernig eigi að framfylgja þeim kvöðum og hver viðurlögin eru.

20.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 975. fundar, dagsett 11. júlí 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

21.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 976. fundar, dagsett 17. júlí 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

22.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 977. fundar, dagsett 25. júlí 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

23.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 978. fundar, dagsett 31. júlí 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 12:00.