Móahverfi - nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar

 

 

 

Móahverfi - 2. áfangi - júní 2024

Í öðrum áfanga eru lóðir boðnar á útboði fyrir raðhús, parhús og einbýlishús. Um er að ræða tíu raðhúsalóðir, sjö parhúsalóðir og 28 einbýlishúsalóðir. Aðeins lögaðilar geta boðið í raðhúsalóðirnar, aðeins einstaklingar í einbýlishúsalóðirnar en hvoru tveggja mega bjóða í parhúsalóðirnar.
Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Móahverfi - 1. áfangi - mars 2022

Í þessum fyrsta áfanga eru lóðir boðnar á útboði fyrir fjölbýlishús af öllum stærðum og gerðum auk nokkurra par- og raðhúsa. Um er að ræða átta fjölbýlishúsalóðir, tvær raðhúsalóðir og þrjár parhúsalóðir þar sem heimilt er að byggja á bilinu 220-280 íbúðir samtals. Lögaðilar geta boðið í allar lóðirnar en einstaklingar geta einungis boðið í parhúsalóðirnar.
Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Deiliskipulag Móahverfis - Auglýsing birt í B-deild - júní 2022

Eins og áður hefur komið fram að þá samþykkti Bæjarstjórn tillögu að deiliskipulagi Móahverfis í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 10. maí 2022. Hér má sjá samþykkta deiliskipulagstillögu og greinargerð er hægt að sjá hér.

Deiliskipulagstillagan var auglýst samhliða breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 frá 9. mars til 25. apríl 2022 og bárust fjórar athugasemdir. Deiliskipulagið, með þeim breytingum sem gerðar voru í kjölfar athugasemda, var sent til Skipulagsstofnunar og birt í B-deild stjórnartíðinda þann 20. júní 2022 og öðlast þegar gildi. Auglýsing sem birt var má sjá hér.

Deiliskipulag Móahverfis - Niðurstaða bæjarstjórnar - maí 2022

Bæjarstjórn samþykkti 10. maí 2022 tillögu að deiliskipulagi Móahverfis í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkta deiliskipulagstillögu má sjá hér og greinargerð með tillögunni hér.

Deiliskipulagstillagan var auglýst samhliða breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 frá 9. mars til 25. apríl 2022. Fjórar athugasemdir bárust sem leiddu til smávægilegra breytinga á skipulaginu varðandi tengistíga. Deiliskipulagið hefur verið sent Skipulagsstofnun og tekur það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Aðalskipulagsbreyting og nýtt deiliskipulag auglýst - mars 2022

Bæjarstjórn samþykkti 1. mars tillögu að deiliskipulagi Móahverfis og að hún verði auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu fyrir svæðið. 

Undanfarnar vikur og mánuði, frá því fyrstu drög að skipulagi voru kynnt, hefur verið unnið úr ábendingum frá íbúum, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum auk þess sem vindgreining var gerð ásamt frekari skoðunum á svæðinu. Hafa í kjölfarið verið gerðar nokkrar breytingar á upphaflegri tilllögu. Nokkur dæmi:

  • Torg/dvalarsvæði flyst nær Borgarbraut ásamt byggingum í kring þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Bætt er við aðkomu að þessari lóð frá Borgarbraut.
  • Trjágróðri er bætt við á svæðum sem eru óvarin fyrir norðlægum vindáttum. Einnig eru gerðar breytingar á legu og lögun nokkurra fjölbýlishúsa, einkum meðfram Síðubraut, vegna niðurstöðu vindgreiningar.
  • Formi, uppröðun og hæð fjölbýlishúsa er breytt lítillega á nokkrum stöðum sem hefur í för með sér að íbúðafjöldi eykst aðeins. Í heildina er gert ráð fyrir allt að 1.100 íbúðum á svæðinu.
  • Gert er ráð fyrir íþróttasvæði syðst á skipulagssvæðinu þar sem mögulegt er að koma fyrir sparkvöllum eða samfelldu gras-/gervigrassvæði.
  • Bætt er við undirgöngum undir Borgarbraut á móts við gönguás og grænt svæði sem liggur í gegnum mitt hverfið.

Skipulagið hefur nú verið auglýst formlega samkvæmt skipulagslögum og er hægt að nálgast auglýsinguna hér. Hægt er að skila inn athugasemdum til og með 25. apríl næstkomandi.

Sjá líka:

 

Nýtt íbúðasvæði fær nafnið Móahverfi - desember 2021

Skipulagsráð samþykkti 8. desember 2021 að nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar fái heitið Móahverfi.

Á fundi skipulagsráðs var lagt fram bréf nafnanefndar frá 11. júní 2021 þar sem lagt er til að hverfið, sem hefur haft vinnuheitið Kollugerðishagi, verði kennt við móa, lón eða flatir og að götur í hverfinu fái samsvarandi endingu.

Skipulagsráð samþykkti að götur í nýja hverfinu verði kenndar við móa og hverfið fái heitið Móahverfi. Einnig samþykkti ráðið að óska eftir tillögum nemenda í Síðuskóla að heitum gatna á svæðinu sem fái endinguna -mói.

Drög að breytingu á aðalskipulagi - nóvember 2021 

Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018 - 2030 vegna uppbyggingar á nýju íbúðahverfi vestan Borgarbrautar. 

Breytingin felst í að þéttleiki íbúðabyggðar verður 25 - 30 íbúðir á ha í stað 26 íbúða á ha áður. Viðmiðum fyrir skiptingu íbúða er einnig breytt. Hefur þetta í för með sér að áætlaður íbúðafjöldi á svæðinu eykst úr 1340 íbúðum í 1800 - 2000 íbúðir.

Hægt er að skila inn athugasemdum og ábendingum til og með 1. desember 2021. Nánar hér. 

Drög að deiliskipulagi - október 2021

Akureyrarbær kynnir drög að deiliskipulagi fyrir nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar, fyrir ofan Síðuhverfi í framhaldi af Giljahverfi. Markmiðið er að leggja grunn að hverfi með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi búsetukostur.

Í stuttu máli:

  • Allt að 970 íbúðir á svæðinu og má því ætla að íbúafjöldi verði á bilinu 1.900-2.300.
  • Gert er ráð fyrir að íbúðir í fjölbýli verði um 77-80% samanborið við 20-23% í sérbýli sem þýðir að álíka mikið landsvæði fer undir fjölbýli og sérbýli.
  • Stefnt er að því að hefja uppbyggingu úr suðri vegna nálægðar við Síðuskóla þar sem svigrúm er til að fjölga nemendum.

Hér er myndræn kynning á deiliskipulagstillögunni og hér er skýringaruppdráttur

Grænt og vistvænt hverfi

Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi er gert ráð fyrir að safngata liggi í gegnum íbúðasvæðið en húsagötur verði í flestum tilvikum botngötur til að hægja á umferð. Lagt er til þétt net göngu- og hjólastíga um hverfið og að meginleiðir verði ekki meðfram safngötu til að skapa næði frá bílaumferð. Mikil áhersla er lögð á gott aðgengi að grænum svæðum og er gert ráð fyrir torgsvæði, leiksvæðum, sleðabrekku og matjurtagarði.

Sjálfbær þróun er lykilatriði samkvæmt tillögunni og birtist meðal annars í blágrænum ofanvatnslausnum sem stefnt er að því að nota í hverfinu. Við enda botngata er gert ráð fyrir snjósöfnunarsvæðum sem tengjast ofanvatnslausnum svo ekki þurfi að aka snjó burt eftir mokstur. Þá er lagt til að kvöð verði sett á lóðir fjölbýlishúsa um trjágróður.

Gagnlegar hugmyndir frá íbúum

Lýsing á skipulagsverkefninu var kynnt í maí og þá var jafnframt óskað eftir hugmyndum frá íbúum í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ.

Fjölmargar áhugaverðar og gagnlegar hugmyndir bárust sem voru hafðar til hliðsjónar við skipulagsvinnuna og rötuðu nokkrar þeirra með einum eða öðrum hætti inn í drög að deiliskipulagi. Sem dæmi má nefna hugmyndir um ofanvatnslausnir, aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum, botngötur og snjósöfnunarsvæði, áherslu á gott stígakerfi, tillögu um matjurtagarða fyrir íbúa og að jarðefni sem falli til við framkvæmdir verði notað til að búa til útivistarsvæði. Helstu tillögur sem bárust og viðbrögð við þeim er að finna í kynningargögnum deiliskipulagsins.

Athygli er vakin á því að skipulagssvæðið var í upphafi kynnt undir vinnuheitinu Kollugerðishagi en ákveðið hefur verið að svæðið fái annað nafn þegar fram líða stundir.

Næstu skref 

Áhersla er lögð á að kynna vel drög að deiliskipulagi. 

Opið hús. Þriðjudaginn 12. október kl. 16-19 verður tillagan sett fram til kynningar á myndrænan og aðgengilegan hátt í menningarhúsinu Hofi. Starfsfólk bæjarins og skipulagsráðgjafi verða á staðnum til að segja frá og svara spurningum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér skipulagið og koma ábendingum á framfæri.

Kynningarfundur fyrir fagaðila. Þriðjudaginn 12. október kl. 20 verður kynningarfundur fyrir fagaðila sem koma að uppbyggingu íbúðasvæða. Markhópar fundarins eru meðal annars byggingarverktakar, fasteignasalar, mannvirkjahönnuðir og aðrir sem koma að uppbyggingu með einum eða öðrum hætti. Fundurinn fer fram í Hömrum í menningarhúsinu Hofi. Gestir eru beðnir um að skrá sig á fundinn hér.

Hvernig líst þér á tillöguna? Íbúar eru hvattir til að koma á framfæri sínum ábendingum með því að smella hér. Uppfært 1. nóvember: Lokað hefur verið fyrir ábendingar í bili. 

Ábendingum er einnig hægt að koma á framfæri skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9, eða í gegnum netfangið skipulagssvid@akureyri.is

Skipulagstillagan verður í kynningarferli til 29. október. Þá verður unnið úr ábendingum frá íbúum, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum áður en skipulagsráð og bæjarstjórn taka tillöguna til frekar umfjöllunar og afgreiðslu. Að því loknu verður tillagan auglýst og kynnt vel í sex vikur áður en hún verður tekin aftur fyrir til samþykktar.

Skipulagslýsing - maí 2021

Verkefnið snýst m.a. um að afmarka íbúðarlóðir og byggingarreiti, skilgreina fyrirkomulag gatnakerfis, bílastæða, göngu- og hjólastíga, útivistar- og almenningssvæða. Með deiliskipulagi er lagður grunnur að nýju hverfi með fjölbreyttum íbúðargerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi til búsetu.

Gert er ráð fyrir um 750 íbúðum og er lagt upp með að um 60-80% verði í fjölbýli og 20-40% í sérbýli (einbýli, par- og raðhús). Sjálfbær þróun verður höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á góðar tengingar gangandi og hjólandi innan hverfis, við aðliggjandi útivistarsvæði og hverfi.

Skipulagslýsing var samþykkt í bæjarstjórn 20. apríl 2020. Hér er hægt að skoða skipulagslýsinguna en frestur til að gera athugasemd við hana rennur út 19. maí. Athugasemdum er hægt að skila með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram eða skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrarbæjar, Geislagötu 9.

Gerum gott hverfi – hugmyndasöfnun - maí 2021

Markmiðið er að búa til gott hverfi í samráði við íbúa og þess vegna óskum við eftir hugmyndum. Þær geta meðal annars snúið að byggingum, samgöngum, opnum svæðum, þjónustu, afþreyingarmöguleikum eða einhverju allt öðru. Gagnlegt getur verið að móta hugmyndir út frá sínu nærumhverfi:

  • Hvað er það besta við þitt hverfi?
  • Hvað vantar í þínu nærumhverfi?
  • Hvaða einkenni þarf grænt, vistvænt og nútímalegt hverfi að hafa?
  • Hvað ber að varast í skipulagsvinnunni?
  • Hugmyndum er safnað í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ. Hægt er að senda inn hugmyndir á tímabilinu 5.-31. maí. Allar hugmyndir koma til skoðunar við gerð skipulagsins.

Hvernig nota ég samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ? 

  • Með því að smella á þennan hlekk getur þú skoðað þær hugmyndir sem settar hafa verið fram varðandi nýja hverfið. Allir geta komið sinni hugmynd á framfæri með því að smella á "Bættu við nýrri hugmynd". Við hvetjum fólk til að skrá sig inn í gegnum island.is, Facebook eða búa til nýjan aðgang með netfangi. 
  • Hægt er að kjósa hugmyndir upp/niður með því að smella á örvarnar. 
  • Hægt er að hefja/taka þátt í umræðum um hugmynd með því að skrifa rök með eða rök á móti. 
  • Hægt er að setja inn mynd/myndband máli sínu til stuðnings. 

  

 

Uppfært í okt 2021: Fjölmargar áhugaverðar og gagnlegar hugmyndir bárust sem voru hafðar til hliðsjónar við skipulagsvinnuna og rötuðu nokkrar þeirra með einum eða öðrum hætti inn í drög að deiliskipulagi. Sem dæmi má nefna hugmyndir um ofanvatnslausnir, aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum, botngötur og snjósöfnunarsvæði, áherslu á gott stígakerfi, tillögu um matjurtagarða fyrir íbúa og að jarðefni sem falli til við framkvæmdir verði notað til að búa til útivistarsvæði. Helstu tillögur sem bárust og viðbrögð við þeim er að finna í kynningargögnum deiliskipulagsins.

Síðast uppfært 30. september 2024