Dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar

Bæjarstjórnarfundir eru að jafnaði fyrsta og þriðja þriðjudag hvers mánaðar. Í júlí og ágúst er yfirleitt fundarhlé hjá bæjarstjórn og hefur bæjarráð þá heimild til fullnaðarafgreiðslu mála. Fundirnir eru haldnir í sal á 1. hæð í Ráðhúsinu, Geislagötu 9 og hefjast kl. 16:00.  Upptökur frá fundunum er hægt að nálgast hér. 

Dagskrá bæjarstjórnarfundar 18. júní:

Almenn mál

1. 2022060869 - Bæjarstjórn - áætlun um fundi 2022-2026

Lögð fram eftirfarandi tillaga um sumarleyfi bæjarstjórnar 2024 í samræmi við samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar:
Frá og með 1. júlí til og með 31. ágúst 2023 verði sumarleyfi bæjarstjórnar. Ekki verða haldnir fundir í bæjarstjórn á framangreindu tímabili nema þörf krefji eða þriðjungur bæjarfulltrúa krefjist þess. Jafnframt er bæjarráði á þessum tíma heimiluð fullnaðarafgreiðsla þeirra mála sem það telur nauðsynlegt að fái afgreiðslu og lög mæla ekki gegn.

 

2. 2024040912 - Lónsbakki - nýtt hringtorg við Lónsbakka

Liður 14 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 24. apríl 2024:
Erindi dagsett 17. apríl 2024 þar sem kynntar eru framkvæmdir Vegagerðarinnar við nýtt hringtorg og undirgöng á hringvegi við Lónsveg í landi Akureyrarbæjar við Mýrarlón.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt hringtorg og að stofnuð verði 4.137 fm spilda úr landi Mýrarlóns sem verði afsalað til Vegagerðarinnar.
Fyrir bæjarstjórn liggur að staðfesta afsal á umræddu landi vegna framkvæmdanna.

 

3. 2024060172 - Holtahverfi við Miðholt - breyting á aðalskipulagi

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. júní 2024:
Á 420. fundi skipulagsráðs þann 27. mars 2024 gerði skipulagsráð eftirfarandi bókun í kjölfarið á úthlutun lóðanna við Miðholt : Skipulagsráð samþykkir að veita lóðinni til umsækjanda og er skipulagsfulltrúa falið að hefja viðræður um skipulagsbreytingarnar. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.
Skipulagráði hefur nú borist lýsing á aðalskipulagsbreytingunni sem unnin er af Landslagi ehf.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna með fyrirvara um lagfæringar í samræmi við umræður á fundinum. Skipulagsráð samþykkir jafnframt að eftirfarandi verði bætt við:
- ákvæði sem varðar verslunar- og þjónustusvæði við Hlíðarbraut, merkt VÞ17, sem felur í sér að á þeim reit verði heimilt að vera með íbúðir á efri hæðum bygginga. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

4. 2023040862 - Hafnarstræti 73 og 75 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. júní 2024:
Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til Hafnarstrætis 73-75 og felur í sér að lóðirnar verði sameinaðar og gert ráð fyrir að núverandi bygging verði 5 hæðir í stað 3,5 hæða og það tengt með nýrri 5 hæða byggingu á lóð 75. Vinnslutillaga var kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga í desember 2023 og var málið í kjölfarið á dagskrá skipulagsráðs 10. janúar 2024. Var afgreiðslu málsins þá frestað þar til fyrir lægu viðbrögð umsækjenda við umsögn Minjastofnunar Íslands.
Eins og fram kemur í meðfylgjandi gögnum hefur verið í gangi samráð við Minjastofnun um útfærslu sem gerir ekki athugasemd við áframhald málsins.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og leggur til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi til samræmis við fyrirliggjandi gögn verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

5. 2023020943 - Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar - viðauki

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. júní 2024:
Lagður fram viðauki 3.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir viðauka 3 og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn. Viðaukinn er til kominn vegna launakostnaðar vegna forsetakosninga, samstarfssamnings við ríkið um menningarmál, breytinga á álagningu gatnagerðargjalda, bættrar salernisaðstöðu í Lystigarðinum og aukinnar fjárheimildar vegna gatnagerðar Móahverfis. Útgjaldaaukning vegna viðaukans er 269,8 m.kr. og er mætt með lækkun á handbæru fé.

 

6. 2023031752 - Íþróttafélagið Þór - uppbygging á félagssvæði Þórs

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. júní 2024:
Liður 7 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 10. júní 2024:
Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála kynnti drög að samningi Akureyrarbæjar við Íþróttafélagið Þór varðandi framkvæmdir og uppbyggingu á gervigrassvæði á félagssvæði Þórs.
Áheyrnarfulltrúi: París Anna Bergmann Elvarsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.
Fræðslu- og lýðheilsuráð vísar samningi til afgreiðslu í bæjarráði.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið. Þá sat Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum fyrir sitt leyti samning við Íþróttafélagið Þór og vísar honum til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista situr hjá og óskar bókað: Það er hafið yfir allan vafa að útiæfingaaðstaða fyrir yngri iðkendur knattspyrnu á Þórssvæðinu er óviðunandi og hægt að færa rök fyrir því að bregðast hefði átt við mun fyrr. Sit hjá undir málinu í dag og tek afstöðu á bæjarstjórnarfundi í næstu viku þegar tími hefur gefist til að rýna í gögn sem lágu ekki fyrir fyrir fundinn. Þ.e. hvað þessi framkvæmd þýðir fyrir framkvæmdaáætlun næstu ára og fjármögnun hennar og vísa þá til 21. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar.

 

7. 2024051842 - Beiðni um umsögn bæjarstjórnar um nýtt lyfsöluleyfi

Lagt fram erindi frá Kristni Páli Sigurbjörnssyni f.h. Lyfjastofnunar þar sem óskað er umsagnar bæjarstjórnar um nýtt lyfsöluleyfi fyrir lyfjafræðing vegna fyrirhugaðrar lyfjabúðar að Austursíðu 6, 603 Akureyri.
Þess er óskað að umsögn berist eigi síðar en 20. júní nk.

 

8. 2024060997 - Ferðaþjónusta á Akureyri

Rætt um komur skemmtiferðarskipa og áhrif þeirra á uppbyggingu innan sveitarfélagsins.

 

Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 6. og 13. júní 2024
Bæjarráð 13. júní 2024
Fræðslu- og lýðheilsuráð 27. maí og 10. júní 2024
Skipulagsráð 12. júní 2024
Umhverfis- og mannvirkjaráð 4. júní 2024 

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Síðast uppfært 14. júní 2024