Hundahald - spurt og svarað

Algengar spurningar og svör varðandi hundahald 

 Smellið á plúsana til að sjá meira.

Hvar mega hundar vera lausir?  

Heimilt er að sleppa hundum lausum á eftirtöldum stöðum 

1. Í landi Blómsturvalla í Hörgárbyggð
2. Borgir við Norðurslóð (UNAK)

Sjá kort og lýsingar hjá Félagi hundaeigenda á Akureyri

Er hundurinn minn sjálfkrafa skráður hjá Akureyrarbæ þegar hann er örmerktur eða með ættbók?  

Nei, það þarf að sækja sérstaklega um leyfi til hundahalds. Umsóknareyðublað má nálgast inn á þjónustugátt Akureyrarbæjar. Athugið að það þarf íslykil eða rafræn skilríki til að komast inn á þjónustugáttina. Hægt er að fá aðstoð við útfyllingu umsóknarinnar í þjónustuverinu í anddyri Ráðhúss, Geislagötu 9.

Sjá gjaldskrá vegna hundahalds

Er skylda að skrá hundinn? 

Já, það er skylda. Hundahald í Akureyrarbæ er óheimilt nema að fengnu leyfi og uppfylltum skilyrðum. Skilyrðin sem þarf að uppfylla eru að hundurinn þarf að vera örmerktur, ormahreinsaður og keypt sé ábyrgðartrygging fyrir hundinn. Ef um fjölbýlishús er að ræða þarf að liggi fyrir samþykki eigenda íbúða fjöleignahúsa. 

Eru hundar leyfðir í fjölbýlis/fjöleignahúsum? 

Já, ef eigandi hefur aflað samþykkis eigenda íbúða hússins fyrir hundahaldi þegar um er að ræða sameiginlegt húsrými.

Skriflegt samþykki sameigenda fer skv. 33. e gr. og 33. f gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samþykki 2/3 hluta eigenda þarf ef fara þarf um sameiginlegan inngang eða stigagang að íbúð. Gildir það jafnframt ef um utanáliggjandi stigagang er að ræða eða ef gengið er inn í íbúð af svölum sbr. 1. mgr. 33. f gr.

Ef íbúð er með sérinngang eða gengið er inn um sameiginlegar útitröppur þá þarf ekki að afla samþykkis annarra eigenda fjölbýlishúss, sbr. 1. mgr. 33. f gr. Skiptir ekki máli í því samhengi þótt annað rými fasteignarinnar sé sameiginlegt, svo sem lóð og annað sameiginlegt rými.

Hlaða niður eyðublaði fyrir skriflegt samþykki um hundahald í fjölbýlishúsi

Hvað er innifalið í leyfisgjaldinu? 

Eftirlitsgjaldið er þjónustugjald frá sveitarfélaginu sem það nýtir til að geta haldið úti þjónustu í málaflokknum, t.d. fyrir hundasvæðin, starfsmenn og verktaka sem koma að málaflokknum og rekstur á dýrageymslu.  

Sjá gjaldskrá vegna hundahalds

Hvað geri ég þegar ég er búinn að senda inn umsóknina?  

Ef umsókn og öll fylgigögn eru í lagi verður útbúið leyfisbréf sem sent verður á heimili umsækjanda ásamt greiðsluseðli og númeraðri plötu sem fer um háls hundsins. Ef eitthvað vantar í umsóknina er haft samband við umsækjanda og honum leiðbeint hvernig nálgast skal upplýsingar sem upp á vantar.

Hvaða fylgigögn á að senda með umsókninni? 

  • Vottorð um síðustu ormahreinsun, vottorð þarf að vera gefið út innan 12 mánaða frá umsóknardegi.
  • Staðfesting dýralæknis um örmerkingu  
  • Staðfesting á ábyrgðartryggingu 
  • Skriflegt samþykki 2/3 hluta eigenda í fjöleignarhúsi þar sem eitthvert húsrými er sameiginlegt  

 

Hvernig nálgast ég þessi fylgigögn? 

  • Inn á umsóknareyðublaðinu er hægt að sækja sérstakt form til undirritunar eigenda í fjöleignarhúsi.  
  • Taka mynd eða afrit af vottorði um síðustu ormahreinsun eða biðja dýralækni að senda sér afrit og láta fylgja með umsókn 
  • Taka mynd eða afrit af staðfestingu dýralæknis um örmerkingu eða biðja dýralækni að senda sér og láta fylgja með umsókn 
  • Taka mynd eða afrit af ábyrgðartryggingu sem gjarnan finnst á „Mínum síðum“ tryggingafélaganna. Einnig hægt að biðja tryggingafélagið um að senda sér afrit. 

 

Hverjir sinna dýraeftirlitinu? 

Dýraeftirlit snýr að margvíslegum þáttum og er sinnt af starfsmönnum umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar sem og verktökum. 

 Hvert tilkynni ég óskráðan hund? 

Hægt er að senda ábendingu inn á ábendingavef Akureyrarbæjar.

Ef mig grunar illa meðferð á hundi hvert get ég leitað? 

Hringja í Matvælastofnun (MAST) í síma 530 4800 eða senda inn ábendingu á ábendingavef Matvælastofnunar

Sjá einnig fyrir nánari upplýsingar.

Hvað á ég að gera ef ég finn lausan hund? 

Hægt er að tilkynna lausa hunda í síma 460 1000, eða bakvaktarsíma umhverfismiðstöðvar, 860 9300, eftir kl: 15:00. Lausir hundar eru settir í sérstaka hundageymslu og geta eigendur vitjað þeirra þar. 

Gjald vegna handsömunar hunds greiðist við afhendingu. Gjaldið fyrir skráðan hund er 15.000 kr. en 45.000 kr. ef um óskráðan hund er að ræða. Að auki skal greiða daggjald kr. 3.850, fyrir hvern heilan dag.  Óskráða hunda má ekki afhenda fyrr en að lokinni skráningu. 

Á facebook má finna síður um týnd dýr.   

Hvernig afskrái ég hundinn? 

Ef hundurinn deyr þarf að tilkynna það til sveitarfélagsins. Einnig þarf að láta vita ef hundurinn flytur úr sveitarfélaginu. Hægt er að afskrá hundinn með því að senda tölvupóst á dyrahald@akureyri.is og láta fylgja með nafn og kennitölu eiganda og númer dýrs.  

Er einhver afsláttur af hundaleyfisgjöldum?

Heimilt er að veita þeim eigendum hunda sem sótt hafa námskeið viðurkennds hundaþjálfara 50% afslátt af eftirlitsgjaldi í eitt skipti fyrir hvern hund.

Björgunarsveitar- og hjálparhundar eru undanþegnir eftirlitsgjaldi, en eru eftir sem áður skráningarskyldir og skulu uppfylla skilyrði sem tilgreind eru í 3.gr samþykktar um hundahald

Síðast uppfært 04. september 2024