Austursíða 4 - umsókn um breytingu á aðalskipulagi

Málsnúmer 2023090795

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 409. fundur - 27.09.2023

Erindi dagsett 15. september 2023 þar sem Baldur Ó. Svavarsson f.h. Klettáss ehf. sækir um heimild til að reisa íbúðarhús á allt að sjö hæðum á lóð nr. 4 við Austursíðu. Áformin kalla á breytingu á aðalskipulagi þar sem umrædd lóð er á svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði AT7 í Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030.

Meðfylgjandi eru skýringaruppdrættir.
Meirihluti skipulagsráðs tekur jákvætt í að þróa hugmyndina áfram og felur skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda um framhald málsins.


Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista situr hjá við afgreiðslu tillögunnar.


Sindri Kristjánsson S-lista óskar bókað eftirfarandi:

Undirritaður hefur talsverðar efasemdir um tillöguna og skiptast þær í nokkra þætti. Í fyrsta lagi hefur skipulagsráð áður tekið afstöðu til hugmynda um íbúðauppbyggingu á svæðinu. Á fundi sínum þann 25. september 2019 hafnaði ráðið einróma umleitan þáverandi lóðarhafa um breytingu á aðalskipulagi þannig að byggja mætti upp íbúðabyggð á lóðinni. Þá voru rökin á þann veg að svæðið væri óhentugt til uppbyggingar þar sem lóðin væri nú þegar hluti af heildstæðu athafnasvæði sem afmarkaðist af umferðarþungum þjóðvegi, athafnasvæði og götunni Austursíðu sem er aðkomuvegur að athafnasvæði. Það eitt hefur breyst síðan þá er að starfsemi á lóðinni sjálfri hefur aukist til mikilla muna. Í annan stað ganga áformin út á að reisa fjölbýlishús sem samkvæmt ítrustu óskum tillöguhöfunda yrði eitt það stærsta í bænum, umlukið eingöngu umferðargötum og bílastæðum verslunarmiðstöðvar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit tillögunnar um að henni sé ætlað að bregðast við skorti á íbúðamarkaði verða skipulagsyfirvöld að huga að því umhverfi sem íbúum bæjarins uppfylli einhverjar lágmarkskröfur varðandi ásýnd, aðbúnað, náttúrufar o.fl. í þeim dúr. Í þriðja lagi verður að nefna þá staðreynd að umferðaraukning í Austursíðu vegna tilkomu verslunarmiðstöðvarinnar Norðurtorgs er nú þegar umkvörtunar- og áhyggjuefni íbúa á svæðinu. Telur undirritaður að varla sé á ástandið bætandi á meðan enn hefur ekki verið gripið til mótvægisaðgerða vegna þeirrar umferðaraukningar sem þegar hefur átt sér stað.

Skipulagsráð - 416. fundur - 31.01.2024

Erindi Baldurs Ólafs Svavarssonar dagsett 10. janúar 2024, f.h. Norðurtorgs ehf., þar sem lögð er fram uppfærð tillaga að uppbyggingu íbúðarhúss á lóð Austursíðu 6. Felur uppbygging íbúðarhúss á lóðinni í sér að gerð verði breyting á aðalskipulagi.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem felur í að breyta landnotkun í verslun- og þjónustu með heimild fyrir íbúðir.


Sindri Kristjánsson S-lista óskar bókað eftirfarandi :

Undirritaður hefur þegar lýst talsverðum efasemdum um þessa tillögu. Með þeirri tillögu sem hér er framkomin hefur verið reynt að eyða, eða a.m.k. draga verulega úr þeim efasemdum. Umhverfi tillögunar er að einhverju leyti manneskjuvænni og vistlegri frá því sem áður var, þó svo að enn hafi tillagan á sér það yfirbragð að mínu mati að reisa eigi fjölbýlishús á umferðareyju. Aðrar efasemdir um tillöguna, sem felur m.a. í sér breytingu á aðalskipulagi, standa enn eftir að mestu. Til að bregðast við skorti á íbúðamarkaði í bænum með auknu lóðaframboði eru fjöldamörg önnur tækifæri, aðrar staðsetningar sem henta mun betur til íbúðauppbyggingar að mati undirritaðs.

Skipulagsráð - 418. fundur - 28.02.2024

Lögð fram tillaga að lýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til svæðis við Austursíðu, til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 31. janúar sl.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn - 3542. fundur - 05.03.2024

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. febrúar 2024:

Lögð fram tillaga að lýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til svæðis við Austursíðu, til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 31. janúar sl.

Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Andri Teitsson kynnti.

Til máls tóku Jón Hjaltason, Andri Teitsson, Hilda Jana Gísladóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir skipulagslýsinguna með 9 atkvæðum og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista sitja hjá.

Skipulagsráð - 425. fundur - 12.06.2024

Auglýsingu á lýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu Austursíðu 2-6 lauk 1. maí 2024 og bárust 6 umsagnir á auglýsingatímanum en engar athugasemdir. Er nú lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið sem felst í að landnotkun þess breytist úr athafnasvæði í svæði fyrir verslun- og þjónustu. Þá er unnið með heimild fyrir íbúðum á efri hæðum.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa fyrirliggjandi drög að tillögu að breytingu á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

Skipulagsráð - 428. fundur - 14.08.2024

Drög að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir Austursíðu 4 voru kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 19. júní til og með 12. júlí 2024. Í breytingunni felst að landnotkun á svæði sem nær til lóða við Austursíðu 2, 4 og 6 breytist úr athafnasvæði í verslun- og þjónustu. Er gert ráð fyrir blandaðri landnotkun á svæðinu með heimild fyrir íbúðum á efri hæðum og miðað við að íbúðarhús geti verið allt að 5 hæðir.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á villu í texta.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins verði auglýst með fyrirvara um lagfæringar á texta um hæðir húsa skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarráð - 3858. fundur - 22.08.2024

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 14. ágúst 2024:

Drög að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir Austursíðu 4 voru kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 19. júní til og með 12. júlí 2024. Í breytingunni felst að landnotkun á svæði sem nær til lóða við Austursíðu 2, 4 og 6 breytist úr athafnasvæði í verslun- og þjónustu. Er gert ráð fyrir blandaðri landnotkun á svæðinu með heimild fyrir íbúðum á efri hæðum og miðað við að íbúðarhús geti verið allt að 5 hæðir.

Ein athugasemd barst á kynningartíma þar sem bent var á villu í texta.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins verði auglýst með fyrirvara um lagfæringar á texta um hæðir húsa skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum að breyting á aðalskipulagi sem nær til lóða við Austursíðu 2, 4 og 6 verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá.