Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. febrúar 2024:
Lögð fram tillaga að lýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til svæðis við Austursíðu, til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 31. janúar sl.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við lýsinguna. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki lýsinguna og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Andri Teitsson kynnti.
Til máls tóku Jón Hjaltason, Andri Teitsson, Hilda Jana Gísladóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista situr hjá við afgreiðslu tillögunnar.
Sindri Kristjánsson S-lista óskar bókað eftirfarandi:
Undirritaður hefur talsverðar efasemdir um tillöguna og skiptast þær í nokkra þætti. Í fyrsta lagi hefur skipulagsráð áður tekið afstöðu til hugmynda um íbúðauppbyggingu á svæðinu. Á fundi sínum þann 25. september 2019 hafnaði ráðið einróma umleitan þáverandi lóðarhafa um breytingu á aðalskipulagi þannig að byggja mætti upp íbúðabyggð á lóðinni. Þá voru rökin á þann veg að svæðið væri óhentugt til uppbyggingar þar sem lóðin væri nú þegar hluti af heildstæðu athafnasvæði sem afmarkaðist af umferðarþungum þjóðvegi, athafnasvæði og götunni Austursíðu sem er aðkomuvegur að athafnasvæði. Það eitt hefur breyst síðan þá er að starfsemi á lóðinni sjálfri hefur aukist til mikilla muna. Í annan stað ganga áformin út á að reisa fjölbýlishús sem samkvæmt ítrustu óskum tillöguhöfunda yrði eitt það stærsta í bænum, umlukið eingöngu umferðargötum og bílastæðum verslunarmiðstöðvar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit tillögunnar um að henni sé ætlað að bregðast við skorti á íbúðamarkaði verða skipulagsyfirvöld að huga að því umhverfi sem íbúum bæjarins uppfylli einhverjar lágmarkskröfur varðandi ásýnd, aðbúnað, náttúrufar o.fl. í þeim dúr. Í þriðja lagi verður að nefna þá staðreynd að umferðaraukning í Austursíðu vegna tilkomu verslunarmiðstöðvarinnar Norðurtorgs er nú þegar umkvörtunar- og áhyggjuefni íbúa á svæðinu. Telur undirritaður að varla sé á ástandið bætandi á meðan enn hefur ekki verið gripið til mótvægisaðgerða vegna þeirrar umferðaraukningar sem þegar hefur átt sér stað.