Akureyri hefur ávallt staðið framarlega þegar kemur að umhverfis- og loftlagsmálum, því er gríðarlega mikilvægt að viðhalda þessari fyrirmyndarstöðu og gera enn betur. Bærinn er einnig þekktur sem útivistarparadís en til að viðhalda því orðspori er mikilvægt að ganga vel um bæinn og halda honum hreinum og snyrtilegum.
Markmið þessara aðgerða er helst að viðhalda stöðu Akureyrar sem fyrirmyndarbær í umhverfis- og loftlagsmálum. Enn fremur snúast aðgerðirnar um að tryggja að bærinn sé hreinn og snyrtilegur.
Aðgerðir í þessum kafla tengjast eftirfarandi heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna:
6.1. Svæðisborg
Aðgerð: Útbúa áætlun í samstarfi við SSNE og SSNV um hvernig Akureyri geti stutt við og átt í samstarfi við önnur sveitarfélög í umhverfis- og loftlagsmálum.
Framkvæmd: Í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 um svæðisborgarhlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarna landsbyggðarinnar verði gerð viðeigandi áætlun.
Markmið: Að Akureyri sé fyrirmynd í umhverfis- og loftlagsmálum og sé meðvituð um hlutverk sitt sem slík.
Ábyrgð: Bæjarstjóri og forstöðumaður umhverfis- og sorpmála
Staða:
6.2. Stjórnendaþekking
Aðgerð: Allir stjórnendur sem í ákvörðunum sínum þurfa að taka tillit til umhverfis- og loftlagsstefnu bæjarins fái greinargóða fræðslu um stefnuna og verkferla sem henni tengjast. Slík fræðsla þarf að vera þvert á öll svið.
Framkvæmd: Setja saman fræðslupakka sem er hnitmiðaður og athyglisverður. Nýta þá fræðslu sem er í boði í gegnum LOFTUM fræðsluverkefni Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.
Markmið: Að starfsfólk hafi umhverfis- og loftlagsstefnu bæjarins að leiðarljósi í sinni vinnu og séu nógu vel upplýstir til að geta unnið samkvæmt henni.
Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála og Vistorka
Staða:
6.3. Græn skref
Aðgerð: Akureyrarbær tekur þátt í Grænum skrefum SSNE.
Framkvæmd: Halda áfram þátttöku í tilraunaverkefninu og taka græn skref á öllum starfsstöðvum bæjarins ef verkefnið heldur áfram.
Markmið: Að gera rekstur bæjarins umhverfis- og loftslagsvænni.
Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála
Staða: Ráðhúsið og Amtsbókasafnið eru þátttakendur í verkefninu.
6.4. Umhverfi tímafrekra framkvæmda
Aðgerð: Vekja athygli á góðri umgengni framkvæmdaraðila við tímafrekar og umfangsmiklar framkvæmdir. Veita þeim framkvæmdaraðilum sem skara fram úr viðurkenningu fyrir fyrirmyndarumgengni á verkstað.
Framkvæmd: Gera matskvarða sem framkvæmdastaðir eru metnir eftir, t.d. vel máluð skilrúm sem umlykja framkvæmdasvæði, daglegan snyrtilegan frágang véla og tækja, gætilega og snyrtilega umgengni um nálæg mannvirki og náttúru og á margan annan máta. Útbúa innrammaðar viðurkenningar sem viðkomandi verktakar fá afhentar.
Markmið: Að lágmarka neikvæða sjónræna upplifun bæjarbúa við framkvæmdum verktaka sem taka margar vikur og mánuði og hafa umtalsvert rask í för með sér. Að skapa hvata fyrir verktaka til að lágmarka neikvæða sjónræna upplifun bæjarbúa vegna framkvæmda sinna.
Ábyrgð: Byggingarfulltrúi og forstöðumaður umhverfis- og sorpmála
Staða:
6.5. Geymslusvæði og gámar
Aðgerð: Skoða að koma upp vöktuðu geymslusvæði fyrir lausamuni. Auka eftirlit með gámum sem standa innan Akureyrarbæjar.
Framkvæmd: Kanna möguleika á að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bænum fyrir almenning og fyrirtæki til að geyma ökutæki, vagna, vinnuvélar, gáma og aðra lausamuni. Auka eftirlit með gámum sem standa í bænum og innheimtu stöðugjalda og skoða að setja reglur um gáma og stöðuleyfi í landi Akureyrarbæjar.
Markmið: Að Akureyri sé snyrtilegur bær og að bæjarbúar og rekstraraðilar gangi vel um.
Ábyrgð: Sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og byggingarfulltrúi
Staða:
6.6. Ljósmengun
Aðgerð: Draga úr ljósmengun og bæta myrkurgæði á Akureyri. Ljósgeislar uppsettrar lýsingar vísi á það sem á að lýsa upp en ekki til hliðar eða upp í himinhvolfið.
Framkvæmd: Uppfæra Ljósvistarskipulag bæjarins og gera kynningarátak meðal verktaka og hönnuða.
Markmið: Auka myrkurgæði og draga úr ljósmengun.
Ábyrgð: Forstöðumaður viðhalds
Staða: Unnið er að uppfærslu Ljósvistarskipulags.
6.7. Rusl á almannafæri
Aðgerð: Vitundarvakning um að henda ekki rusli á almannafæri eða láta ekki sitt eftir liggja. Bæta umgengni og flokkun á stórum menningar- og íþróttaviðburðum.
Framkvæmd: Með átaki á samfélagsmiðlum. Bærinn tekur virkan þátt í Plokkdeginum á ári hverju og hvetur íbúa til að taka þátt. Gera kröfu um góða umgengni og flokkun á stórum menningar- og íþróttaviðburðum.
Markmið: Að Akureyri sé snyrtilegur bær og að bæjarbúar og gestir gangi vel um.
Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála og forstöðumaður atvinnu- og menningarmála
Staða:
6.8. Menningarsögulegar minjar
Aðgerð: Vernda menningarsögulegar minjar, náttúruminjar og náttúruvætti sem stafar hætta af áhrifum loftslagsbreytinga.
Framkvæmd: Hefja kortlagningu á þeim menningarsögulegu minjum og náttúruminjum sem stafar hætta af áhrifum loftslagsbreytinga. Gera áætlun um varðveislu þeirra.
Markmið: Að vernda menningarsögulegar minjar innan sveitarfélagsins og aðgengi komandi kynslóða að þeim.
Ábyrgð: Skipulagsfulltrúi og forstöðumaður umhverfis- og sorpmála
Staða:
6.9. Umgengni í bæjarlandinu
Aðgerð: Hafa virkt eftirlit með fasteignum og lóðum í bænum og tryggja að þeim sé haldið hreinum og snyrtilegum.
Framkvæmd: Akureyrarbær sýni gott fordæmi og taki til á sínum eigin lóðum (númeralausir bílar, lausamunir o.þ.h.). Íbúar og fyrirtæki hvött til að fylgja fordæmi bæjarins. Auka eftirlit með umgengni í kringum nýframkvæmdir og þegar komið er á eða farið af framkvæmdastað og gera kröfu um að rekstraraðilar gangi snyrtilega um lóðir sínar. Gera átak í að láta fyrirtæki og einstaklinga virða lóðamörk. Leggja til að farið verði í endurskoðun á samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra.
Markmið: Að Akureyri sé snyrtilegur bær og að bæjarbúar og rekstraraðilar gangi vel um.
Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og skipulagsfulltrúi
Staða:
6.10. Aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga
Aðgerð: Gerð verði aðgerðaráætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Framkvæmd: Akureyrarbær tekur þátt í verkefninu Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga (aðgerð C.10 í byggðaáætlun). Þá verði farið í gerð aðgerðaráætlunar sem byggi á kortlagningu á helstu áhættuþáttum vegna loftslagsbreytinga og leiðir til aðlögunar. Horft verði sérstaklega til hækkunar yfirborðs sjávar, úrkomu og flóða, ofsaveðurs og fárviðris, lífríkis og gróðurfars.
Markmið: Að auka aðlögunargetu Akureyrarbæjar að áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga og draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á samfélagið.
Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála
Staða: Fyrsta vinnustofa vegna verkefnisins var haldin í nóvember 2023.