Barnaverndarþjónustan á Norðurlandi eystra

Hlekkur á síðu barnaverndar fyrir börn Hlekkur í tilkynningar til barnaverndar Hlekkur í viðbragðsáætlun vegna barnaverndartilkynninga

Ef þú telur að barn búi við aðstæður sem eru á einhvern hátt óæskilegar eða hafa neikvæð áhrif á heilsu þess, líðan eða þroska skalt þú senda inn tilkynningu til Barnaverndar. Ef þú telur að barn sé í hættu og málið þolir ekki bið skalt þú hringja strax í 112.

Bakvakt Barnaverndarþjónustunnar á Norðurlandi eystra sinnir neyðartilvikum utan skrifstofutíma. Skrifstofutími er frá kl. 9.00 til 15.00 og hægt er að ná í Barnavernd í gegnum símanúmer þjónustuvers Akureyrarbæjar: 460-1000. Netfang Barnaverndar: barnavernd(hjá)akureyri.is.

Sveitarfélögin: Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit, reka saman Barnaverndarþjónustuna á Norðurlandi eystra.

Yfirmaður Barnaverndarþjónustunnar á Norðurlandi eystra er: Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndar á velferðarsviði Akureyrarbæjar, vilborg(hjá)akureyri.is.

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði á heimili sínu með því að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu og veita börnum og ungmennum stuðning og viðeigandi úrræði þegar þau er í vanda stödd. Starfsmenn barnaverndarþjónustu kannar aðstæður barna sem talin eru búa við óviðunandi aðstæður og beitir tiltækum úrræðum til úrbóta, svo sem ráðgjöf eða meðferð, tilsjón, eftirliti á heimili, persónulegri ráðgjöf, stuðningsfjölskyldu og vistun af margvíslegum toga.

Verklag og vinnsla barnaverndarmála fer fram í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 og reglur um málsmeðferð hjá starfsmönnum barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar. Starfsmenn vinna í umboði barnaverndarlaga og heyra undir Velferðarsvið Akureyrarbæjar.

Tilkynning til barnaverndarþjónustu er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi, sjá Viðbragðsáætlun vegna barnaverndartilkynninga.

Látum raddir barna og ungmenna heyrast og hlustum. Barnaverndarþjónustan á Norðurlandi eystra leggur áherslu á að fá fram sjónarmið barna og hlusta eftir þörfum þeirra. Til að tryggja þetta fá börn og ungmenni talsmann í flóknari málum barnaverndar og við vinnslu máls er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna ávallt hafður til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku.

Barnavernd telur mikilvægt að þjónusta við börn og foreldra þeirra sé þverfagleg innan og milli sviða sveitarfélags sem og annarra stofnanna sem að málum barna og ungmenna koma. Áhersla er því lögð á samráð til að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra sem best.

Fyrir frekari upplýsingar sjá: Stefna og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar tímabilið 2023 – 2027.

Úrræði til stuðnings og verndar börnum og ungmennum af hálfu Barnaverndarþjónustunnar á Norðurlandi eystra

Áhersla er lögð á samvinnu við foreldra og börn um stuðningsúrræði og önnur inngrip af hálfu barnaverndarþjónustu. Foreldrar og börn sem eru með mál hjá Barnaverndarþjónustu geta fengið fjölbreyttan stuðning og ráðgjöf. Gerð er áætlun um stuðning og úrræði sem barnaverndarþjónusta veitir og lögð áhersla á samráð við alla þá aðila sem koma að málum barns og eftir atvikum foreldra þeirra.

Áætlanir í málum barna í barnaverndarþjónustu eru einstaklingsbundnar og sniðnar að þörfum hvers og eins. Til að geta mætt þörfum barna og foreldra þarf barnavernd að búa yfir og hafa aðgengi að margvíslegum úrræðum. Hér eru dæmi um úrræði sem Barnaverndarþjónustan á Norðurlandi eystra býr yfir.

Stuðningsfjölskyldur

Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni til vistunar í nokkra daga í mánuði m.a. í því skyni að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og styðja foreldra í forsjárhlutverkinu. Þá er einnig verið að stuðla að því að efla félagslega þátttöku barns og styrkja stuðningsnet þeirra.

Tilsjón

Tilsjónaraðili leiðbeinir og styður foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni. Samningur við tilsjónaraðila er einstaklingsbundinn og sniðinn að þörfum foreldra og markmiðum með úrræðinu í samráði við foreldra. Stuðningurinn fer fram á heimili fjölskyldunnar þar sem foreldri fær persónulega stuðning og leiðbeiningar í uppeldi og umönnun barna sinna.

Persónuleg ráðgjöf

Persónulegur ráðgjafi veitir barni eða ungmenni persónulegan stuðning þar sem stuðst er við ákveðin markmið. Tilgangurinn er að styrkja barnið eða ungmennið félagslega, siðferðislega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir. Lögð er áhersla á samskipti og virkni.

Tröppusamtöl

Tröppusamtöl eru ætluð börnum eða ungmennum sem hafa búið við heimilisofbeldi

Greiningar- og þjálfunarvistun á einkaheimili

Markmið með greiningar- og þjálfunarvistun er að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu, veita börnum öruggt umhverfi og styðja við uppeldi þeirra, bæta samskipti barna og foreldra og jafnframt að veita aðstoð og aðhald. Greiningar- og þjálfunarvistun er tímabundin vistun í 6 til 8 vikur.

Vistanir á einkaheimili

Barnaverndarþjónustan á Norðurlandi eystra hefur yfir að ráða möguleika á að vista börn án tafar á fjórum einkaheimilum. Um er að ræða vistunarúrræði þegar bregðast þarf skjótt við vanda sem upp kemur og vista þarf barn utan heimilis tímabundið.

Tímabundið fóstur

Börn búa tímabundið á fósturheimili þegar gert er ráð fyrir því að foreldrar geti bætti aðstæður sínar og barnið snúið heima að nýju. Tímabundið fóstur getur að hámarki varað í tvö ár með örfáum undantekningum.

Varanlegt fóstur

Sum börn og ungmenni sem hafa verið í tímabundnu fóstri geta ekki snúið heim til foreldra á ný og önnur úrræði fullreynd fara í varanlegt fóstur. Með varanlegu fóstri er verið að tryggja börnum og ungmennum góðar uppeldisaðstæður og tækifæri til að mynda tengsl við fósturforeldra til frambúðar. Áður en kemur að varanlegu fóstri fer fram reynslutímabil þar sem fósturforeldrar og börn fá tækifæri til að tengjast og aðlagast.

Styrkt fóstur

Börn eða ungmenni sem eiga við sérstakan hegðunarvanda að stríða þurfa stundum að búa tímabundið á fósturheimili sem getur boðið uppá markvissan og þéttan stuðning þar sem fósturforeldrar hafa bæði menntun, reynslu og þekkingu til að styðja við börn og ungmenni sem glíma við mikinn tilfinninga-og hegðunarvanda. Fagfólk og stofnanir koma að slíkum ráðstöfunum og lagt er uppúr þéttri samvinnu og samráði.

Myndband sem leiðbeinir börnum hvernig þau geta notað "Hnappinn" til að senda skilaboð til barnaverndar

 

Gagnlegir tenglar:
Barna- og fjölskyldustofa
Umdæmisráð barnaverndar landsbyggða
Mennta- og barnamálaráðuneytið

Síðast uppfært 16. október 2024