Lýðheilsukort - skilmálar

Almennir skilmálar vegna kaupa á lýðheilsukorti

Söluaðili:
Akureyrarbær
Geislagötu 9
600 Akureyri

Kennitala: 410169-6229

Reglur um lýðheilsukort

Lýðheilsukort veitir íbúum með lögheimili í sveitarfélagi Akureyrarbæjar árskort að Sundlaugum Akureyrarbæjar (Sundlaug Akureyrar, Glerárlaug, Hrísey og Grímsey), Hlíðarfjalli (sumar- og vetraropnun) og Skautahöllinni á Akureyri (skautaleiga innifalin) gegn lægra gjaldi með möguleika að dreifa kostnaði á 12 mánuði.

Lýðheilsukortið verður í boði fyrir alla íbúa með lögheimili í sveitarfélagi Akureyrarbæjar. Kortin verða í sölu frá 10. nóvember 2022 til 1. maí 2025 og gilda í eitt ár frá kaupdegi. Miðað er við aldur barns á kaupdegi og kortið heldur gildistíma sínum þó að viðkomandi verði 18 ára á tímabilinu.

Binditími lýðheilsukorta er eitt ár.

Lýðheilsukortið gildir ekki á sérstaka viðburði líkt og önnur árskort hjá viðkomandi stofnunum/félögum, þeir viðburðir eru auglýstir sérstaklega. 

Ábyrgð kaupanda

Kaupandi skal ávallt lesa og kynna sér vel upplýsingar um það sem kaupa skal áður en umsókn er kláruð og send. Kaupandi er ábyrgur fyrir því að tryggja að kaup hans séu í takt við eigin óskir.

Framkvæmd pöntunarinnar

Sótt er um lýðheilsukortið á sérstöku umsóknareyðublaði í þjónustugátt Akureyrarbæjar. Með því að senda inn umsókn hefur umsækjandi skuldbundið sig til að kaupa viðkomandi þjónustu.

Greiðsluskilmálar

Hægt er að velja í umsóknarformi hvort árgjaldi sé skipt á 12 mánuði eða allt gjaldið greitt fyrir fram í einni kröfu. Sama hvor greiðsluleiðin er farin, þá er umsækjandi að skuldbinda sig í 12 mánuði og til greiðslu alls árgjaldsins.

Næsta virka dag eftir að umsókn hefur verið skilað inn er stofnaður reikningur og birt krafa frá Akureyrarbæ í heimabanka umsækjanda með skýringunni - Íþróttahús. Þegar valin er 12 mánaða dreifing er upphæð fyrsta og síðasta reiknings hlutfallsleg, eftir því hvaða dag mánaðar sótt er um, aðrir reikningar stofnast um mánaðamót. Eindagi kröfu er 15 dögum eftir útgáfudag, dráttarvextir reiknast frá gjalddaga sé krafa greidd eftir eindaga. Ef krafa er ógreidd 8 dögum eftir eindaga er send innheimtuviðvörun á lögheimili greiðanda. Ef krafa er enn ógreidd 20 dögum eftir eindaga færist hún í milliinnheimtu hjá innheimtufyrirtæki skv. innheimtureglum Akureyrarbæjar. Slík innheimta felur í sér að innheimtukostnaður bætist við kröfuna. 

Sé krafa enn ógreidd 30 dögum eftir eindaga er útgefnum lýðheilsukortum að baki kröfunnar lokað og um leið stofnuð krafa fyrir eftirstöðvum árgjalds ef valin hefur verið 12 mánaða greiðsludreifing. Sú krafa fer einnig í innheimtu eins og að framan er lýst.

Þegar kortum hefur verið lokað vegna vanskila eru þau ekki lengur virk hjá þeim stofnunum/félögum sem eru aðilar að lýðheilsukorti. Þegar vanskil hafa verið gerð upp og eftirstöðvar árgjalds greiddar eru kort opnuð aftur til loka tímabils.

Leiðbeiningar hvernig sækja má kvittun fyrir Lýðheilsukortinu má finna hér

Afhending og virkjun lýðheilsukorta

Þegar búið er að sækja um lýðheilsukortið í þjónustugátt Akureyrarbæjar er hægt að sækja það í afgreiðslu Sundlaugar Akureyrar. Afhending og virkjun lýðheilsukorta fer alfarið fram í afgreiðslu Sundlaugar Akureyrar.

Athugið að til að fá útgefið kort (skidata-kort, sjá verðskrá) þarf einstaklingur/fjölskylda að mæta í afgreiðslu Sundlaugar Akureyrar þar sem taka þarf ljósmynd á staðnum af handhafa hvers korts. Ef allir fjölskyldumeðlimir geta ekki komið saman þegar kortin eru virkjuð og sótt verður umsækjandi að mæta með útprentaða mynd eða mynd í síma af þeim fjölskyldumeðlim sem mætir ekki, nema ef viðkomandi hefur áður átt árskort í Sundlaugar Akureyrar eða Hlíðarfjalli.

Ekki er hægt að sækja um né kaupa lýðheilsukortið í Sundlaug Akureyrar og fer umsóknin og val um greiðsluleið alfarið í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Þau sem ekki hafa rafræn skilríki eða geta af öðrum ástæðum ekki sótt um Lýðheilsukort í gegnum Þjónustugáttina geta sótt um í Þjónustuveri bæjarins í Ráðhúsinu, Geislagötu 9 frá kl. 9-15 virka daga. Mikilvægt er að umsækjendur hafi meðferðis persónuskilríki.

Síðast uppfært 30. apríl 2024