Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. desember 2022:
Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Gunnar Már Gunnarsson B-lista sat fundinn undir þessum lið og þá sat Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2023-2026 til seinni umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.
Halla Björk Reynisdóttir kynnti fjárhagsáætlun.
Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Hlynur Jóhannesson, Jana Salóme I. Jósepsdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir og Heimir Örn Árnason.
Hilda Jana Gísladóttir S- lista lagði fram eftirfarandi tillögu:
Gerð verði sú breyting á fjárhagsáætlun 2023-2026, að framkvæmdir við íbúakjarna fyrir fatlað fólk í Nonnahaga færist fram um eitt ár og gert sé ráð fyrir framkvæmdunum á árunum 2024 og 2025, en undirbúningur hefjist eftir sem áður á næsta ári.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista lagði fram eftirfarandi breytingartillögu til viðbótar við tillögu Hildu Jönu Gísladóttur að framkvæmdin verði fjármögnuð með sölu eigna, þannig að hún orðist svo:
Gerð verði sú breyting á fjárhagsáætlun 2023-2026, að framkvæmdir við íbúakjarna fyrir fatlað fólk í Nonnahaga færist fram um eitt ár og gert sé ráð fyrir framkvæmdunum á árunum 2024 og 2025, en undirbúningur hefjist eftir sem áður á næsta ári. Auk þess verði gerð sú breyting á framkvæmdaáætlun, að farið verði í sölu eigna.
Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu að upphæð 10 milljónum.