Ungmennaráð

50. fundur 16. apríl 2024 kl. 17:30 - 19:45 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Felix Hrafn Stefánsson fundarstjóri
  • Elsa Bjarney Viktorsdóttir
  • Fríða Björg Tómasdóttir
  • Guðmar Gísli Þrastarson
  • Haukur Arnar Ottesen Pétursson
  • Heimir Sigurpáll Árnason
  • Lilja Dögun Lúðvíksdóttir
  • París Anna Bergmann Elvarsd.
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
Starfsmenn
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia fundarritari
Fundargerð ritaði: Karen Nóadóttir umsjónarmaður Ungmennaráðs
Dagskrá
Árlegur fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn - "Bæjarstjórnarfundur unga fólksins".

Auk fulltrúa í ungmennaráði sátu fundinn bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Gunnar Már Gunnarsson, Halla Björk Reynisdóttir, Heimir Örn Árnason, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannsson, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Jón Hjaltason, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og varabæjarfulltrúinn Ásrún Ýr Gestsdóttir.

1.Hlutverk nemendaráða

Málsnúmer 2024040706Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Telma Ósk Þórhallsdóttir sem fór yfir mikilvægi þess að skerpa á hlutverki nemendaráða grunnskóla sem hagsmuna-, velferðar- og félagsráðs nemendanna sjálfra. Lagði hún til að byggja upp sterkari nemendaráð.

Jón Hjaltason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendingarnar. Tók hann undir að hlutverk nemendaráðs ætti að vera umfangsmeira en það er núna. Mikilvægt sé að nemendaráð standi vörð um nemendur og sé gátt á milli yngri og eldri nemenda og þá einkum til að koma í veg fyrir einelti.

2.Ungmennaráð - staða og hlutverk

Málsnúmer 2024040701Vakta málsnúmer

Heimir Sigurpáll Árnason kynnti málið og ræddi um mikilvægi ungmennaráðs fyrir sveitarfélagið, þá m.t.t. barna og ungmenna en ekki síður stjórnsýslunnar. Ungmennaráð óskar eftir sæti áheyrnarfulltrúa í öll ráð til þess að stuðla að aukinni lýðræðislegri þátttöku í málefnum sveitarfélagsins. Lagði hann til að stefnt yrði lengra og gert meira til að hlusta á unga fólkið okkar.

Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar, þakkaði fyrir góða fyrirspurn og upplýsti að þetta mál hefði verið tekið fyrir og rætt. Áhersla ætti hins vegar frekar að vera á fasta samráðsfundi með ungmennaráði 1-2 á ári um þá málaflokka þar sem ungmennaráð er ekki með fasta áheyrnarfulltrúa í ráðum og nefndum. Ítrekaði hann að ungmennaráð hafi gert mikið af góðum hlutum og haft jákvæð áhrif.

Til máls tók Telma Ósk Þórhallsdóttir og lagði til að bæjarstjórn endurhugsaði afstöðu sína.

Til máls tók Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi og benti á að þetta sé vandmeðfarið, enda geti fundir tekið langan tíma. Hins vegar mættu fulltrúar í ráðum og nefndum vera duglegri að vísa málum til ungmennaráðs og óska eftir umsögnum eins og gert hefur verið í einhverjum mæli. Svo hafi komið upp hugmynd að það að sitja í ungmennaráði geti verið valfag í skólum.

Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að stundum sé búið að samþykkja málefni þegar þau koma til umsagnar ungmennaráðs. Betra væri að geta bókað um málin áður en þau eru samþykkt.

Loks tók til máls Heimir Sigurpáll Árnason öðru sinni.

3.Ruslamál

Málsnúmer 2024040688Vakta málsnúmer

Umræða um Ruslamál. Málshefjendur voru Elsa Bjarney Viktorsdóttir og París Anna Bergmann Elvarsdóttir.

Ungmenni hafa í nokkur ár kallað eftir úrbótum varðandi sorp og sorphirðu á Akureyri. Málið hefur verið tekið fyrir á nokkrum fundum en lítið hefur breyst að mati ungmenna. Má þar t.d. nefna sérstaka flokkun út frá neysluhegðun fólks í dag þegar kemur að veipi og nikótínpúðum. Kallað hefur verið eftir flokkunartunnum. Íbúum hefur fjölgað og einnig þurfi að hafa breytta neysluhegðun fólks í huga.

Ásrún Ýr Gestsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir að vakin væri athygli á málinu. Flokkunartunnur séu vissulega ekki auðfundnar og mun það vera rætt í umhverfis- og mannvirkjaráði. Því miður sé það þannig að níkótínpúðar fari í almennt sorp en gera mætti átak í að vekja athygli á hættunum sem fylgja því þegar börn finna notaða púða. Rafrettur séu flokkaðar sem lítil raftæki, en einnota rafrettur flokkast sem batterí og þetta þurfi að fræða fólk um.

4.Gervigrasvöllur í Hrísey

Málsnúmer 2024040690Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Fríða Björg Tómasdóttir.

Börn og ungmenni í Hrísey hafa lengi kallað eftir því að fá gervigrasvöll á skólalóðina sína líkt og er hjá öllum öðrum grunnskólum í sveitarfélaginu. Núverandi völlur er staðsettur á grasbletti sem verður að drullu þegar rignir. Einnig er erfitt að spila á þessum velli í snjó. Innanbæjar á Akureyri séu hins vegar allir vellir upphitaðir. Vakti Fríða Björg athygli á 2. gr. barnasáttmálans sem segir að öll börn séu jöfn. Lítið hafi verið um svör frá bænum varðandi þetta mál, en margir kostir séu við að fá upphitaðan völl í Hrísey, svo sem aukin hreyfing, aukin samskipti og betri hreyfing. Hvatti hún til þess að gert yrði ráð fyrir slíkum velli í áætlunum bæjarins.

Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi brást við f.h. hönd bæjarstjórnar og benti á að þegar vellirnir komu við skólana hafi það verið átaksverkefni á vegum KSÍ en félagið sé ekki að veita fé til svona verkefna í dag. Í framtíðinni verði þeir vellir sem eru til staðar ekki upphitaðir yfir köldustu vetrarmánuðina. Einnig er óvissa um hvort að gervigrasvellir verði leyfilegir innan næstu fimm ára. Bærinn mun því miður ekki koma að því að setja upp fleiri gervigrasvelli að svo stöddu.

Til máls tóku Fríða Björg Tómasdóttir, Heimir Sigurpáll Árnason, París Anna Bergmann Elvarsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi, Guðmar Gísli Þrastarson, Ásrún Ýr Gestsdóttir bæjarfulltrúi og Telma Ósk Þórhallsdóttir.

5.Fríar skólamáltíðir

Málsnúmer 2024040703Vakta málsnúmer

Málshefjandi var París Anna Bergmann Elvarsdóttir og ræddi um fríar skólamáltíðir í grunnskólum sveitarfélagsins og hvar við stöndum í því. Benti París Anna á að það ættu að vera grundvallarréttindi að börn hefðu aðgengi að fríuum skólamáltíðum. Gjaldfrjáls skólamatur ætti að tryggja að allir nemendur hafi aðgengi að hollri næringu.

Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góðar umræður. Mikilvægt væri fyrir bæjarfulltrúa að fá að heyra raddir unga fólksins. Tók hún undir mikilvægi góðrar næringar fyrir alla krakka, en hefur þó áhyggjur af matarsóun og hvort þetta verði með tímanum næringarminni máltíðir ef þær verði fríar. Þetta þurfi þó að ræða áfram.

París Anna Bergmann Elvarsdóttir brást við og endurtók spurningar ungmennaráðs.

Til máls tók Fríða Björg Tómasdóttir.

6.Sálfræðiþjónusta fyrir börn

Málsnúmer 2024040691Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Guðmar Gísli Þrastarson og fjallaði um aukna sálfræðiþjónustu fyrir börn og betra aðgengi, sér í lagi að skólasálfræðingum. Erfitt hafi verið að manna stöður skólasálfræðinga. Sálfræðingar veiti stuðning og almenna hvatningu sem ætti að standa öllum börnum til boða. Mjög gleðilegt hafi verið þegar samningur var gerður við Bergið headspace. Mikilvægt sé að forgangsraða og sálfræðiþjónusta barna í sveitarfélaginu ætti að njóta forgangs. Sem barnvænt sveitarfélag ætti bærinn að láta í sér heyra því biðlistar eru of langir og mörg börn sem þurfa á þessari aðstoð að halda.

Lára Halldóra Eiríkisdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir að málið væri tekið á dagskrá. Varðandi stöðu skólasálfræðinga eru þær stöður ekki til staðar en það eru sálfræðingar á fræðslu- og lýðheilsusviði sem eru að þjónusta skólana. Tók Lára undir það að börn þurfa á sálfræðiþjónustu að halda en bænum hefur ekki tekist að ráða í þær stöður sem auglýstar hafa verið á sviðinu. Hún tók undir að gleðilegt væri að gerður hafi verið samningur við Bergið headspace, aukið hafi verið við geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og biðlistar hafi styst. Hyggst hún tala fyrir þessu máli innan bæjarins áfram.

Til máls tóku Telma Ósk Þórhallsdóttir, Lilja Dögun Lúðvíksdóttir, Fríða Björg Tómasdóttir, París Anna Bergmann Elvarsdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi, Elsa Bjarney Viktorsdóttir og Heimir Sigurpáll Árnason.

7.Fræðslumál í grunnskólum

Málsnúmer 2024040702Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Lilja Dögun Lúðvíksdóttir.

Ungmenni kalla eftir aukinni fræðslu um hinseginleikann og kynfræðslu. Mikilvægt að hinseginfræðsla byrji snemma í grunnskólum því þar er fjallað um fjölbreytileikann. Hinsegin börnum líður verr í skólakerfinu en öðrum börnum. Með réttum upplýsingum má styðja við betra umhverfi fyrir öll. Með kynfræðslu læra börn að setja mörk og samþykki. Lagt til að bærinn stofni Jafnréttisskóla sem myndi styðja við starfsfólk skóla og vera þeim innan handar hvað varðar jafnréttismál, hinsegin málefni, kynfræðslu og réttindi almennt. Tenging við réttindafræðslu, innleiðingu verkefnisins Réttindaskóli- og frístund og Jafnréttisskóla.

Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Benti hann á að bærinn er nýbúinn að skrifa undir samning við Samtökin 78 um fræðslu. Þetta sé góð umræða og verði tekið fyrir áfram í fræðslu- og lýðheilsuráði.

Til máls tóku París Anna Bergmann Elvarsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi og Elsa Bjarney Viktorsdóttir.

8.Skuggakosningar

Málsnúmer 2024040707Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Telma Ósk Þórhallsdóttir.

Ungmennaráð óskar eftir því að gert verði ráð fyrir því í fjárhagsáætlun bæjarins að haldnar verði svokallaðar skuggakosningar í grunn- og framhaldsskólum sveitarfélagsins. Slíkar kosningar myndu t.d. ná til kosninga til bæjarstjórnar, Alþingis og forseta. Þetta gæti ýtt undir lýðræðisþátttöku ungs fólks. Með skuggakosningum er verið að hvetja ungmenni til að mynda sér skoðuna og bjóða upp á þjalfun í lýðræðislegri þátttöku.

Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góða umræðu. Við þekkjum öll þá umræðu að minnkandi áhugi á kosningum er ógn við lýðræðið og mikilvægt að ungmenni taki þátt og myndi sér skoðanir og skuggakosningar eru góð leið til þess. Benti Andri einnig á að það mætti líka ræða að lækka kosningaaldur.

9.Ungmennaráð - launamál

Málsnúmer 2024040733Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Heimir Sigurpáll Árnason sem vakti athygli á þeirri miklu vinnu sem liggur að baki störfum í ungmennaráði. Árið 2019 fengu fulltrúar ungmennaráðs fyrst greitt fyrir setu í ráðinu. Benti Heimir á að ráðið er flokkað sem vinnuhópur á vefsíðu Akureyrarbæjar. Telur hann ungmennaráð eins mikilvæg og önnur ráð bæjarins.

Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góða fyrirspurn. Borið saman við önnur ungmennaráð á landinu sé ungmennaráð Akureyrarbæjar það launahæsta. Þetta hafi verið skoðað vel og vandlega og telji bæjarstjórn að verið sé að gera vel við ungmennaráð í dag og vinna fulltrúa þess sé vel metin.

Til máls tóku Telma Ósk Þórhallsdóttir, París Anna Bergmann Elvarsdóttir og Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi.

10.Viðhald á ljósastaurum og gangbrautum

Málsnúmer 2024040704Vakta málsnúmer

París Anna Bergmann Elvarsdóttir kynnti ósk ungmennaráðs um aukið viðhald á ljósastaurum og gangbrautum.

Mikið sé um gangandi vegfarendur og ljós mikilvæg til að tryggja öryggi. Mörg ljós og skilti eru illa farin eða ekki til staðar. Foreldrar verði að geta treyst á að börn þeirra séu örugg í umferðinni. Aukin þörf sé á viðhaldi á ljósastaurum og gangbrautum.

Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendingarnar. Varðandi lýsingu hefur bærinn verið að skipta úr gamaldags perum í LED perur sem gefur öðruvísi birtu sem er kannski ekki að öllu leyti betra. Gangbrautir á þjóðvegum eru í umsjá Vegagerðarinnar.

Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi.

11.Frístundastyrkur

Málsnúmer 2024040705Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Haukur Arnar Ottesen Pétursson sem velti því upp hvaða tómstundir standi börnum og ungmennum í sveitarfélaginu til boða og í hvað frístundastyrkurinn nýtist. Að mati ungmenna er þörf á betri og meiri kynningu á bæði styrknum og tómstundum fyrir börn og ungmenni á barnvænan máta.

Gunnar Már Gunnarsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendinguna. Það sé um að gera að bæta upplýsingaflæði til íbúa. Mjög góð ábending að hugsa um notendur hvað þetta varðar en ekki bara hvernig unnt er að koma upplýsingum til foreldra.

12.Erlent samstarf á vegum Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2024040708Vakta málsnúmer

Málshefjandi var Telma Ósk Þórhallsdóttir sem vakti athygli á því að Akureyrarbær hefði verið mikið í erlendu samstarfi, en ungmennaráð hafi ekki verið haft með í ráðum hvað varðar þessi verkefni. Mikilvægt sé fyrir ungmenni að taka þátt í slíkum verkefnum til að breikka sjóndeildarhringinn og finna nýjar leiðir til að takast á við verkefni. Má nefna norræna vinabæjamótið Novu. Fyrri verkefni hafi sýnt fram á góðan árangur. Ungmennaráð hvetur til þess að aukinn kraftur verður settur í erlend samstarfsverkefni fyrir ungmenni t.d. með auknu fjármagni í málaflokkinn.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir umræðuna. Sagðist hún vera sammála því að svona verkefni séu mjög gefandi, þroskandi verkefni og mikilvæg fyrir ungmenni. Hvatti hún einnig ungmenni til að sækjast eftir þátttöku í verkefnum og mikilvægt sé að komast í verkefni sem fylgir gott fjármagn með því bærinn þurfi líka að sýna aðhald. Svo velti hún því upp hvar svona verkefni eigi heima innan stjórnsýslunnar, kannski eigi þau heima inni á fræðslu- og lýðheilsusviði.

Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir.

13.LED-væðing

Málsnúmer 2024040689Vakta málsnúmer

Felix Hrafn Stefánsson kynnti umræðu um LED lýsingu í bænum. Bærinn hefur verið að skipta yfir í LED lýsingu og því þurfi að hafa ljósmengun á bak við eyrað. Hvíta LED ljósið geti haft áhrif á svefn. Blá útgeislun er það sem fulltrúi ungmennaráðs hefur mestar áhyggjur af. Hafa LED ljósin bláa útgeislun og hvað mikla? Hvít lýsing á kostnað gulleitrar lýsingar sem hugsanlega hefur minni neikvæð áhrif á einstaklinga, náttúru og dýralíf en sú hvíta.

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir gagnlegan og líklega skemmtilegasta bæjarstjórnarfund ársins. Hún hefur skoðað þetta mál og ítrekaði mikilvægi góðrar ljósvistar.

Fundi slitið - kl. 19:45.