Málshefjandi var Telma Ósk Þórhallsdóttir sem vakti athygli á því að Akureyrarbær hefði verið mikið í erlendu samstarfi, en ungmennaráð hafi ekki verið haft með í ráðum hvað varðar þessi verkefni. Mikilvægt sé fyrir ungmenni að taka þátt í slíkum verkefnum til að breikka sjóndeildarhringinn og finna nýjar leiðir til að takast á við verkefni. Má nefna norræna vinabæjamótið Novu. Fyrri verkefni hafi sýnt fram á góðan árangur. Ungmennaráð hvetur til þess að aukinn kraftur verður settur í erlend samstarfsverkefni fyrir ungmenni t.d. með auknu fjármagni í málaflokkinn.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir umræðuna. Sagðist hún vera sammála því að svona verkefni séu mjög gefandi, þroskandi verkefni og mikilvæg fyrir ungmenni. Hvatti hún einnig ungmenni til að sækjast eftir þátttöku í verkefnum og mikilvægt sé að komast í verkefni sem fylgir gott fjármagn með því bærinn þurfi líka að sýna aðhald. Svo velti hún því upp hvar svona verkefni eigi heima innan stjórnsýslunnar, kannski eigi þau heima inni á fræðslu- og lýðheilsusviði.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir.