Heimir Sigurpáll Árnason kynnti málið og ræddi um mikilvægi ungmennaráðs fyrir sveitarfélagið, þá m.t.t. barna og ungmenna en ekki síður stjórnsýslunnar. Ungmennaráð óskar eftir sæti áheyrnarfulltrúa í öll ráð til þess að stuðla að aukinni lýðræðislegri þátttöku í málefnum sveitarfélagsins. Lagði hann til að stefnt yrði lengra og gert meira til að hlusta á unga fólkið okkar.
Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar, þakkaði fyrir góða fyrirspurn og upplýsti að þetta mál hefði verið tekið fyrir og rætt. Áhersla ætti hins vegar frekar að vera á fasta samráðsfundi með ungmennaráði 1-2 á ári um þá málaflokka þar sem ungmennaráð er ekki með fasta áheyrnarfulltrúa í ráðum og nefndum. Ítrekaði hann að ungmennaráð hafi gert mikið af góðum hlutum og haft jákvæð áhrif.
Til máls tók Telma Ósk Þórhallsdóttir og lagði til að bæjarstjórn endurhugsaði afstöðu sína.
Til máls tók Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi og benti á að þetta sé vandmeðfarið, enda geti fundir tekið langan tíma. Hins vegar mættu fulltrúar í ráðum og nefndum vera duglegri að vísa málum til ungmennaráðs og óska eftir umsögnum eins og gert hefur verið í einhverjum mæli. Svo hafi komið upp hugmynd að það að sitja í ungmennaráði geti verið valfag í skólum.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að stundum sé búið að samþykkja málefni þegar þau koma til umsagnar ungmennaráðs. Betra væri að geta bókað um málin áður en þau eru samþykkt.
Loks tók til máls Heimir Sigurpáll Árnason öðru sinni.