Skipulagsráð

442. fundur 26. mars 2025 kl. 08:15 - 11:01 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Þorvaldur Helgi Sigurpálsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri S. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur
  • Einar Sigþórsson verkefnastjóri skipulagsmála
  • Steinunn Karlsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Breyting á aðalskipulagi - reitur VÞ13 eða Naustagata 13

Málsnúmer 2024080332Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem nær til lóðarinnar Naustagötu 13 í Hagahverfi lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan kynnt samhliða drögum að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis.

Á kynningartíma bárust umsagnir frá Minjastofnun, umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. Þá bárust samhljóða athugasemdir frá íbúum í Davíðshaga 2 og 4, Kjarnagötu 51 og Kjarnagötu 45. Innkomnar athugasemdir og umsagnir eiga bæði við um breytingu á aðal- og deiliskipulagi.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Halla Björk Reynisdóttir L-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir skipulagsráð og var það samþykkt.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista vék af fundi undir þessum lið.


Þórhallur Jónsson tók við fundarstjórn undir þessum lið.


Afgreiðslu frestað þar til fyrir liggja viðbrögð lóðarhafa við innkomnum athugasemdum.


Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað:

Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsráði hefur þegar lýst yfir efasemdum sínum um fyrirliggjandi tillögur að breytingu á skipulagi svæðisins. Þær efasemdir endurspeglast vel í framkomnum athugasemdum og mótmælum frá stórum hópi íbúa á svæðinu. Út frá þeim einum og sér ætti skipulagsráð að hafna tillögum lóðarhafa nú þegar. En við bætist að á dögunum kynntu lóðarhafar enn eina breytinguna á hugmyndum sínum um nýtingu lóðarinnar, nú með vönduðum þrívíddarmyndum af heilsugæslustöð á lóðinni. Þó að slíkar hugmyndir rúmist e.t.v. tæknilega innan fyrirliggjandi tillögu að skipulagsbreytingum, þá sér hver sem vill að lóðarhafi er afar tvístígandi um hvað hann hyggst fyrir með lóðina. Úr því sem komið er tel ég því rétt að hafna öllum tillögum um breytt skipulag, gefa lóðarhafa svigrúm til að hefja uppbyggingu samkvæmt gildandi skipulagi (sem liggur fyrir nokkuð óumdeilt) eða að öðrum kosti að skila lóðinni aftur til bæjarins svo fljótt sem verða má.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:

Það hefur verið sterkt ákall frá íbúum Nausta- og Hagahverfis að fá meira líf og þjónustu í hverfin. Ég hef verið mjög jákvæð fyrir því að breyta skipulaginu á þessari lóð til að koma til móts við þær raddir en gert er ráð fyrir einni þjónustubyggingu með stóru bílastæði. Ég sá fyrir mér að fá þarna einhvers konar Kaupang, hús með þjónustu og verslunum, en þá þyrftu líka að vera næg bílastæði. Hér er gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja 75 fm í verslunar- og þjónustuhúsnæði. Ég tel það ekki nóg. Svo er spurning hvort bílastæðin verði ekki alltaf full af bílum sem tilheyra eigendum og gestum íbúðanna á efri hæðunum.

2.Naustagata 13 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023050110Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis, sem nær til lóðarinnar Naustagötu 13, lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan kynnt samhliða drögum að breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem auglýst var skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga.

Á kynningartíma bárust umsagnir frá Minjastofnun, umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. Þá bárust samhljóða athugasemdir frá íbúum í Davíðshaga 2 og 4, Kjarnagötu 51 og Kjarnagötu 45.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Halla Björk Reynisdóttir L-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir skipulagsráð og var það samþykkt.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista vék af fundi undir þessum lið.


Þórhallur Jónsson tók við fundarstjórn undir þessum lið.


Afgreiðslu frestað þar til fyrir liggja viðbrögð lóðarhafa við innkomnum athugasemdum.

3.Sjúkrahúsið á Akureyri - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2025031028Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Nýs Landsspítala ohf. dagsett 19. mars 2025 þar sem lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðis fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustu við Eyrarlandsveg. Varðar breytingin fyrirhugaða viðbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK) byggt á niðurstöðu hönnunarútboðs.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar og skipulagsfulltrúa falið að leita eftir umsögn Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasviðs. Er skipulagsfulltrúa einnig falið að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

- Breyta þarf lóðarmörkum á þann veg að um verði að ræða eina samfellda lóð og að gatan Búðatröð verði vegur innan lóðar.

- Lagfæra þarf legu stíga þannig að þeir tengist stígakerfi bæjarins utan lóðar.

- Æskilegt er að ekki þurfi að keyra yfir stíg til að fara inn á P-merkt stæði.


Skipulagsráð vill einnig koma á framfæri efasemdum um staðsetningu þyrlulendingarsvæðis vegna nálægðar við bílastæði, gangstíg og götu. Þá vill ráðið einnig benda á að skynsamlegt væri að gera ráð fyrir bílakjallara strax í upphafi í stað þess að dreifa bílastæðum yfir eins stórt svæði og fyrirliggjandi tillaga gerir ráð fyrir.

4.Þursaholt 5-9 - flutningur á stæðum

Málsnúmer 2025030932Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. mars 2025 þar sem Sigurður Kolbeinsson f.h. SS Byggis ehf. sækir um að færa bílastæði og breyta legu göngustíga innan lóðarmarka í Þursaholti 5-9. Fjöldi bílastæða breytist ekki.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jón Hjaltason óflokksbundinn á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir skipulagsráð og var það samþykkt.

Jón Hjaltason óflokksbundinn vék af fundi undir þessum lið.


Skipulagsráð hafnar erindinu þar sem tillaga að breyttri útfærslu hefur neikvæð áhrif á öryggi óvarðra vegfarenda á göngustíg sem liggur meðfram lóðinni. Um er að ræða mikilvæga stígatengingu í gegnum hverfið og er ekki talið æskilegt að hún sé þveruð á mörgum stöðum.

5.Ásabyggð 2 - ósk um byggingarheimild

Málsnúmer 2025030911Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn Gísla K. Kristóferssonar dagsett 18. mars 2025 um mögulegar breytingar á þakrými Ásabyggðar 2.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að tillagan verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Ásabyggðar 4 og Byggðavegar 91 þegar fullnægjandi gögn liggja fyrir, þ.e. drög að aðaluppdráttum sem sýna breytt útlit hússins.

6.Hrísey - deiliskipulag fyrir svæði ofan Norðurvegar

Málsnúmer 2023090672Vakta málsnúmer

Lýsing deiliskipulags fyrir svæði ofan núverandi byggðar í Hrísey lögð fram að lokinni kynningu skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ein ábending barst auk umsagna frá Minjastofnun, Norðurorku og Skipulagsstofnun.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að vinna að gerð tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið þar sem tekið verður tillit til fyrirliggjandi ábendinga og athugasemda.

7.Fróðasund 3 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2025030631Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Ragnars F. Guðmundssonar hjá Kollgátu dagsett 13. mars 2025, f.h. lóðarhafa, um breytingu á deiliskipulagi Oddeyrar sem nær til Fróðasunds 3. Í breytingunni felst að afmarkaður er byggingarreitur austan við núverandi íbúðarhús fyrir bílskúr. Einnig er óskað eftir að heimilt verði að reisa 1.8 m háan vegg á lóðarmörkum við Glerárgötu.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og samþykkir að gerður verði nýr byggingarreitur til samræmis við erindið en gerir kröfu um að veggur á lóðarmörkum verði færður aftur um 1 m og gróðri komið fyrir við vesturhlið hans. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Lundargötu 17 og Eiðsvallagötu 4 auk þess sem leita þarf umsagnar Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasviðs.


Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað:

Ég tek undir afstöðu meirihluta skipulagsráðs hvað varðar framlagðar breytingartillögur sem snúa að nýjum byggingarreit fyrir bílskúr. Ég er hins vegar alfarið mótfallinn hugmyndum um að reisa megi 180 cm háan vegg í námunda við lóðarmörk. Ásýnd götunnar mun gjörbreytast við slíka framkvæmd en um er að ræða eitt af andlitum bæjarins ef svo má að orði komast. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að slík framkvæmd sé nauðsynleg til að verja íbúa fyrir hávaða og á meðan svo er get ég ekki samþykkt áformin.

8.Hlíðarendi land 4 - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2024071470Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Önnu Bragadóttur hjá Eflu verkfræðistofu dagsett 20. mars 2025, f.h. Ólafs Stefánssonar, þar sem lögð eru fram drög að deiliskipulagi fyrir spilduna Hlíðarendi land 4 sem liggur að Hlíðarfjallsvegi. Í tillögunni felst að afmarkaðar eru 20 frístundahúsalóðir vestast á spildunni og 12 athafnalóðir á austurhluta hennar. Er tillagan í samræmi við fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi svæðisins.
Afgreiðslu frestað og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir umsögn Norðurorku, umhverfis- og mannvirkjasviðs og Vegagerðarinnar um tillöguna. Skipulagsráð bendir jafnframt á eftirfarandi:

- Gera þarf ráð fyrir hljóðmön og gróðurbelti við austurjaðar svæðisins næst núverandi reiðstíg. Jafnframt þarf að vera hljóðmön og gróður meðfram svæðinu við Hlíðarfjallsveg sunnan svæðisins.

- Tryggja þarf að lýsing á svæðinu sé samkvæmt ljósvistarskipulagi Akureyrarbæjar.

- Gerð verði krafa um afgerandi afmörkun athafnalóða.

9.Hríseyjargata 14 - ósk um P-skilti

Málsnúmer 2024100155Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 2. október 2024 þar sem að Sigrún Pálsdóttir óskar eftir að sérmerkt stæði fyrir fatlaða verði sett upp á girðingarstaur sem næst innganginum í húsið. Ástæða fyrir beiðni er að gatan er þröng og algengt er að bílar leggi fyrir framan bílastæði sem gerir aðkomu erfiða.
Skipulagsráð samþykkir að stæði utan við lóð Hríseyjargötu 14 verði P-merkt.

10.Aðgerðir í umferðaröryggismálum 2025

Málsnúmer 2025031092Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað umhverfis- og mannvirkjasviðs dagsett 20. mars 2025 um aðgerðir í umferðaröryggismálum árið 2025 og minnisblað Eflu verkfræðistofu dagsett 21. mars 2025 um bráðabirgðaaðgerðir á Austursíðu. Byggja minnisblöðin á vinnu við umferðaröryggisáætlun sem nú er í gangi.

Varðandi aðgerðir sem fram koma í minnisblaði umhverfis- og mannvirkjasviðs þá samþykkir skipulagsráð að farið verði í aðgerðir merktar 1, 2, 7 og 9. Skipulagsráð telur ekki æskilegt að ráðast í aðgerðir 3, 4 og 5 í minnisblaðinu í ljósi þess að framkvæmdirnar eru fjarri lagi frá gildandi deiliskipulagi. Í stað þessara aðgerða mælist skipulagsráð eindregið til þess að umferð gangandi vegfarenda sem kemur frá Strandgötu og yfir Glerárgötu verði beint suður Glerárgötuna vestan megin og þaðan í átt að miðbæjarsvæðinu. Skoða þarf betur aðgerðir 6 og 8 að mati ráðsins.


Skipulagsráð telur nauðsynlegt að farið verði í aðgerðir til að auka umferðaröryggi á Hlíðarbraut þar sem fjöldi barna þvera götuna á leið í tómstundir og skólaíþróttir.


Skipulagsráð samþykkir jafnframt að farið verði í aðgerðir sem tilgreindar eru í minnisblaði Eflu verkfræðistofu til að minnka hraða og auka öryggi á Austursíðu. Er skipulagsfulltrúa falið að ákveða, í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið, til hvaða aðgerða verði gripið. Þar sem um bráðabirgðaaðgerðir er að ræða telur ráðið ekki þörf á að fara í breytingu á deiliskipulagi.

11.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2025

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 1006. fundar, dagsett 27. febrúar 2025, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

12.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2025

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 1007. fundar, dagsett 7. mars 2025, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 8 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2025

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 1008. fundar, dagsett 14. mars 2025, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:01.