Málsnúmer 2023050110Vakta málsnúmer
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis, sem nær til lóðarinnar Naustagötu 13, lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan kynnt samhliða drögum að breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem auglýst var skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga.
Á kynningartíma bárust umsagnir frá Minjastofnun, umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. Þá bárust samhljóða athugasemdir frá íbúum í Davíðshaga 2 og 4, Kjarnagötu 51 og Kjarnagötu 45.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista vék af fundi undir þessum lið.
Þórhallur Jónsson tók við fundarstjórn undir þessum lið.
Afgreiðslu frestað þar til fyrir liggja viðbrögð lóðarhafa við innkomnum athugasemdum.
Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsráði hefur þegar lýst yfir efasemdum sínum um fyrirliggjandi tillögur að breytingu á skipulagi svæðisins. Þær efasemdir endurspeglast vel í framkomnum athugasemdum og mótmælum frá stórum hópi íbúa á svæðinu. Út frá þeim einum og sér ætti skipulagsráð að hafna tillögum lóðarhafa nú þegar. En við bætist að á dögunum kynntu lóðarhafar enn eina breytinguna á hugmyndum sínum um nýtingu lóðarinnar, nú með vönduðum þrívíddarmyndum af heilsugæslustöð á lóðinni. Þó að slíkar hugmyndir rúmist e.t.v. tæknilega innan fyrirliggjandi tillögu að skipulagsbreytingum, þá sér hver sem vill að lóðarhafi er afar tvístígandi um hvað hann hyggst fyrir með lóðina. Úr því sem komið er tel ég því rétt að hafna öllum tillögum um breytt skipulag, gefa lóðarhafa svigrúm til að hefja uppbyggingu samkvæmt gildandi skipulagi (sem liggur fyrir nokkuð óumdeilt) eða að öðrum kosti að skila lóðinni aftur til bæjarins svo fljótt sem verða má.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:
Það hefur verið sterkt ákall frá íbúum Nausta- og Hagahverfis að fá meira líf og þjónustu í hverfin. Ég hef verið mjög jákvæð fyrir því að breyta skipulaginu á þessari lóð til að koma til móts við þær raddir en gert er ráð fyrir einni þjónustubyggingu með stóru bílastæði. Ég sá fyrir mér að fá þarna einhvers konar Kaupang, hús með þjónustu og verslunum, en þá þyrftu líka að vera næg bílastæði. Hér er gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja 75 fm í verslunar- og þjónustuhúsnæði. Ég tel það ekki nóg. Svo er spurning hvort bílastæðin verði ekki alltaf full af bílum sem tilheyra eigendum og gestum íbúðanna á efri hæðunum.