Íslenski hópurinn á Novu 2024
Í liðinni viku var haldið vinabæjarmót ungmenna, svonefnt Novu2024, í Randers í Danmörku (Novu er stytting á Nordisk Vennskapsbyuge for Ungdom).
Í mótinu tóku þátt glæsilegir hópar ungmenna á aldrinum 16 - 25 ára frá norrænu vinabæjunum Lathi í Finnlandi, Vesterås í Svíþjóð, Ålesund í Noregi, Akureyri og að sjálfsögðu Randers. Samhliða móti ungmennanna fór fram nokkru styttra vinbæjarmót stjórnmála- og embættismanna frá öllum bæjunum auk þess sem fulltrúar Norrænafélagsins nota tækifærið til að koma saman.
Vinabæjarsamstarfið milli þessara bæja á sér langa sögu og þátttaka Akureyrar teygir sig allt aftur til ársins 1947. Það byggir á traustum grunni og er eitt það virkasta sem um getur á þessu sviði. Frá Akureyri tóku þátt 17 ungmenni en í heildina sendu vinabæirnir 85 ungmenni til mótsins í ár. Þema mótsins var samfélagið með áherslu á menningu, loftslagsbreytingar og sjálfbærni.
Ungmennin tóku m.a. þátt í skapandi vinnustofum, heimsóknum og skoðunarferðum á meðan að stjórnmála- og embættismennirnir heimsóttu menningarstofnanir, íþróttamannvirki, útivistarsvæði auk þess að ræða tækifæri og þær áskoranir sem bæirnir eiga við að etja sem og möguleika í samstarfi sín á milli.
Myndir: María H. Tryggvadóttir