Vika barnsins hefst á Akureyri á morgun og er markmiðið að vekja athygli á málefnum barna með fjölbreyttum hætti. Tilefnið er 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember, en sá dagur er árlega tileinkaður réttindum barna.
Þetta árið ætlar Akureyrarbær að stíga skrefinu lengra og halda upp á viku barnsins sem nær hámarki á afmælisdeginum. Ástæðan er einkum sú að Akureyrarbær vinnur markvisst að því, fyrst sveitarfélaga á Íslandi, að ljúka innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag sem byggir á Barnasáttmálanum.
Frítt í sund alla vikuna
Í viku barnsins verða ýmsir viðburðir á dagskrá, víðs vegar um bæinn, sem snúa að réttindum eða málefnum barna. Öllum börnum verður boðið frítt í sund alla vikuna, ungmennaráð stendur fyrir spennandi „pop-up" viðburðum, þar á meðal pottaspjalli í sundlaug Akureyrar og bæjarfulltrúar bjóða upp á viðtalstíma barna innan veggja skólanna.
Þann 20. nóvember munu fulltrúar úr ungmennaráði funda með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og afhenda henni athugasemdir barna Akureyrar sem safnað verður innan grunnskóla bæjarins. Listasafnið, Amtsbókasafnið og Félagsmiðstöðvar Akureyrar bjóða einnig upp á ýmislegt skemmtilegt fyrir börn og ungmenni, svo eitthvað sé nefnt.
Ekki bara sýnileg, líka með rödd
Við undirbúning eru fjórar grundvallarforsendur Barnasáttmálans hafðar að leiðarljósi og varpa þær ágætu ljósi á markmið Akureyrarbæjar í tengslum við viku barnsins: Við höfum það í huga að mismuna ekki börnum sveitarfélagsins, við gerum það sem barninu er fyrir bestu, við leitumst við að hámarka lífsgæði og þroska allra barna og við munum að í barnvænu sveitarfélagi eru börn ekki bara sýnileg, það heyrist líka í þeim og við hvetjum þau til þátttöku.
Hér er hægt að skoða dagskrá vikunnar. Hún gæti þó tekið breytingum og hvetjum við fólk til að fylgjast með hér á heimasíðunni og á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar.