Vigdís Hafliða gefur ungskáldum góð ráð

Vigdís Hafliðadóttir.
Vigdís Hafliðadóttir.

Miðvikudagskvöldið 10. apríl kl. 20 verður fyrra ritlistakvöld Ungskálda 2024 haldið á LYST í Lystigarðinum. Að þessu sinni er leiðbeinandinn engin annar en Vigdís Hafliðadóttir. Hún hefur komið víða við í lista- og grínheiminum. Vigdís vann keppnina Fyndnasti háskólaneminn árið 2020 og síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Hún er söngkonan í hljómsveitinni FLOTT þar sem hún semur einnig textana sem þykja hnyttnir og skemmtilegir. Hún er meðlimur í spunahópnum Improv Ísland, fréttakona hjá satíru-miðli Hatara Iceland Music News sem vakið hefur alþjóðlega athygli og hefur komið fram með uppistandshópnum VHS. Vigdís hefur einnig komið að dagskrárgerð í útvarpi, handritsskrifum, auglýsingagerð og leiklist.

Ritlistakvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist og er aðgangur ókeypis. Frábært tækifæri til að læra eitthvað nýtt, hitta önnur ungskáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk. Veitingar í boði fyrir skráða gesti.

"Við erum gríðarlega spennt að fá Vígdísi Hafliðadóttur til þess að stýra næsta ritlistakvöldi Ungskálda. Hún er náttúrulega einn af okkar skemmtilegustu og fyndnustu textahöfundum svo það verður líf og fjör á LYST sem ekkert ungmenni ætti að missa af. Frítt og bara að skrá sig," segir Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir, verkefnastjóri Ungskálda.

Skráningu á viðburðinn má finna HÉR

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.

Verkefnið hófst árið 2013 og er það eina sinnar tegundar á landinu. Haldin er ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku og vera frumsamið hugverk. Til þess að örva áhugasama og styðja á ritlistabrautinni er boðið upp á námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun. Leiðbeinendur koma úr ólíkum áttum. Á síðustu árum hefur til að mynda verið leitað til Gunnars Helgasonar, Snæbjörns Ragnarssonar, Kamillu Einarsdóttur, Dóra DNA og Yrsu Sigurðardóttur. Ritlistakvöld Ungskálda hafa einnig slegið í gegn en þar er gestum boðið upp á veitingar, upplestur og tónlistaratriði. Tilvalinn vettvangur til að mynda tengsl í gegnum ritlistina.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan