Vel mætt í fyrsta Fjölskyldutímann í Íþróttahöllinni

Mynd: Ellert Örn Erlingsson
Mynd: Ellert Örn Erlingsson

Hátt í sjötíu gestir mættu í fyrsta Fjölskyldutímann í Íþróttahöllinni á Akureyri síðasta sunnudag. Fjölskyldutímarnir eru verkefni á vegum Íþróttadeildar Akureyrarbæjar þar sem boðið er upp á aðstöðu og tíma fyrir börn á grunnskólaaldri til að eiga virka íþróttasamverustund með systkinum og forráðamönnum.

„Hugmyndin er búin að vera á borðinu í smá tíma og því er frábært að sjá þetta rúlla af stað og líka með svona frábærri mætingu í fyrsta tímann,“ segir Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála.

Ellert Örn segir tilganginn að börn á grunnskólaaldri geti átt samverustund með forráðamönnum og systkinum í íþróttasal og prófað hinar ýmsar íþróttagreinar, leikfimiæfingar, leiki og annað það sem er í boði hverju sinni.

„Við leggjum áherslu á að forráðamenn komi með grunnskólabörnunum og njóti þessarar stundar saman í íþróttasalnum í leik og gleði,“ segir Ellert.

Tímarnir, sem verða á völdum sunnudögum fram í desember kl. 9:30-11:00, eru í umsjón íþróttafræðinga sem eru einnig kennarar í grunnskólum Akureyrarbæjar. Aðgangur er ókeypis.

Næstu tímar verða á sunnudögunum 13. október, 20. október, 27. október, 3. nóvember, 24. nóvember og 8. desember.

Fylgstu með á facebooksíðunni Fjölskyldutímar í Íþróttahöllinni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan