Mynd: Indíana Hreinsdóttir
Í gær fór fram hverfisfundur í Oddeyrarskóla sem einkum var ætlaður íbúum Oddeyrar þótt allir væru að sjálfsögðu velkomnir. Vel var mætt á fundinn og voru umræður líflegar.
Það sem íbúar hverfisins kunna helst að meta við nærumhverfi sitt er góð sorphirða og snjómokstur, skólinn og nýja skólalóðin, veðursældin og hversu stutt er í þjónustu og verslanir. Þegar talið barst að því sem helst þarf að bæta nefndi fólk til að mynda gangstéttir og viðhald á ljósastaurum, umferðaöryggi og álit bæjarbúa á hverfinu.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, opnaði fundinn en síðan tóku við almennar umræður á borðum í salnum þar sem bæjarfulltrúar hlýddu á mál íbúa hverfisins og skráðu niður þær hugmyndir, umkvartanir, lof og last, sem fram komu í umræðunum.
Niðurstöðum verður síðan komið áfram í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frekari úrvinnslu.