Í gær fór svifryksmengun yfir sólarhringsheilsuverndarmörk í loftgæðamælistöðinni við Strandgötu en sólarhringsmeðaltal var 60 µg/m³. Búast má við að ástandið verði með svipuðu móti í dag og trúlega á morgun líka.
Akureyrarbær og Vegagerðin rykbinda helstu umferðargötur til að bregðast við ástandinu. Einnig hefur verið unnið að hreinsun gatna síðustu dægrin til að sporna við svifryksmengun.
Íbúar eru hvattir til þess að draga úr akstri eins og kostur er. Til dæmis með því að nýta sér almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn, ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni fjölfarinna umferðargatna.
Hægt er að fylgjast með mælingum á styrk svifryks og annarra mengunarefna við Strandgötu á vefnum loftgæði.is.