Fjaran. Málverk eftir Elísabetu Geirmundsdóttur.
Fimmtudagskvöldið 28. nóvember kl. 20-22 verða opnaðar tvær sýningar í Listasafninu á Akureyri: Sólveig Baldursdóttir – Augnablik-til baka og Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar. Boðið verður upp á listamannaspjall með Markúsi Þór Andréssyni, sýningarstjóra Átthagamálverksins, kl. 20.40 og Sólveigu kl. 21.
Sólveig Baldursdóttir: Augnablik – til baka
Sólveig Baldursdóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-1982, og við skúlptúrdeild Det Fynske Kunstakademi í Danmörku þaðan sem hún útskrifaðist 1987. Hún flutti til Carrara á Ítalíu 1990 og vann þar að list sinni við Stúdio Niccoli næstu 4 árin. Sólveig rak vinnustofu á Akureyri 1995-2001 og vann að ýmsum útilistaverkum sem og sýningum hér heima og erlendis. Hún var bæjarlistamaður Akureyrar 1999 og hlaut starfslaun myndlistarmanna 2001. Sólveig hefur unnið fyrir ýmsar opinberar stofnanir, t.d. Útflutningsverðlaun forseta Íslands, Utanríkisráðuneytið og sjá má útilistaverk hennar víða um Ísland og einnig erlendis.
„Náttúran hefur alltaf verið mér og minni sköpun mikilvæg. Hún veitir öryggi og fótfestu í allri sinni mildi og fegurð, en er jafnframt óútreiknanleg og vægðarlaus. Margar minningar skjóta upp kollinum þegar hendinni er strokið eftir steininum, hvort sem þær koma frá Danmörku við granítið eða Ítalíu með marmaranum. Sama forvitnin og ósk um samvinnu við steininn er ætíð til staðar áður en ég byrja á verki. Samtalið verður að taka í hljóði áður en hamarinn er reiddur til höggs. Þungi undirtónninn í steininum teygir sig í áttina að hinu fíngerða og smáa í náttúrunni, mosanum og baldursbránni sem vaxa óhindrað í gegnum skin og skúrir þangað til tíma þeirra er lokið.“
Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar
Við ferðumst um Norðausturland í gegnum sögu sem spannar rúma öld. Við stöldrum við og lítum firði, dali, þorp og bæi með augum fólks sem þekkir betur til en nokkur annar. Þetta eru Átthagamálverk sem máluð eru af ást og hlýju, uppfull af tilfinningu fyrir staðháttum og minningum fyrri tíma. Svo vill til að á þessu ferðalagi erum við óvenju heppin með veður!
Hér munda pensilinn jafnt lærðir listamenn sem sjálfmenntað áhugafólk og skapa verk í persónulegu samtali við staði og minningar. Drifkrafturinn er einlæg löngun til að sýna og segja frá, dýpka tengsl, muna og varðveita, fremur en að takast á við strauma og stefnur í listsögulegu samhengi. Á sýningunni má meðal annars sjá æskuverk þjóðþekktra listamanna auk verka eftir fólk af ólíkum stéttum sem sumt hóf fyrst að mála undir starfslok. Sumir eru ástsælir listamenn í sinni heimabyggð, aðrir einfarar sem hafa farið eigin leiðir í listinni. Verkin sýna heimahaga, æskuslóðir eða staði sem staðið hafa þessum listamönnum nærri.
Í verkunum er varðveitt saga ólíkra einstaklinga, en á sýningunni eru verk eftir um þrjátíu manns hvaðanæva af Norðausturlandinu. Um leið segja þau sögu einsleits samfélags sem deilir áþekkum örlögum á tímum samfélagsbreytinga. Á tuttugustu öld fluttist fólk af bæjum í þéttbýli og frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Þessir búferlaflutningar eru samofnir breytingum á sviði menntunar og menningar, verslunar og þjónustu, atvinnu- og efnahagsþróunar sem og félagslegra tengsla. Átthagamálverkin standa eftir eins og tilraun til þess að hægja á þessari framrás, stöðva tímann, fanga eitthvað áður en það verður um seinan.
Hvernig tala átthagamálverk til okkar í dag?
Sýningarstjóri: Markús Þór Andrésson. Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns Reykjavíkur.