Útilífsmiðstöðin að Hömrum - sumarkvöld. Mynd: Kristófer Knutsen.
Það verður gestkvæmt á Akureyri næstu daga, það stefnir í fyrirmyndarveður, bæjarbúar fagna þjóðhátíðardeginum, afmælisárgangar Menntaskólans á Akureyri koma saman, fjöldi menningarviðburða er í boði og Bílaklúbbur Akureyrar heldur Bíladaga.
Tvö tjaldsvæði verða í boði á Akureyri um helgina.
Á tjaldsvæðinu að Hömrum verður aðgangur takmarkaður. Á svæðinu er 18 ára aldurstakmark og yngri einstaklingum verður vísað frá nema þeir séu í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum sínum. Ekki dugar að vera í fylgd með einhverjum eldri en 18 ára. Á Hömrum munu barnafjölskyldur hafa forgang og strangar kröfur verða gerðar um að næðisreglum verði fylgt.
Bílaklúbbur Akureyrar opnaði svo sérstakt tjaldsvæði Bíladaga í gær, þriðjudaginn 13. júní og verður það opið til sunnudagsins 18. júní. Svæðið er opið öllum gestum Bíladaga og ekki er nauðsynlegt að kaupa passa á alla viðburði Bíladaga til að fá aðgang. Sú almenna regla að gestir taki fullt tillit hver til annars er í fullu gildi, en vökureglur á svæði Bílakúbbsins eru þó heldur rýmri en gengur og gerist almennt á tjaldsvæðum.