Evrópska nýtnivikan: Það er óbragð af matarsóun

Evrópska nýtnivika stendur yfir þessa dagana. Um er að ræða samevrópskt átak sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.

Í ár er matarsóun í brennidepli undir slagorðinu "Það er óbragð af matarsóun!" Sérstök áhersla er lögð á nýtingu afganga og eru fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir, skólar og almenningur hvött til þess að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn matarsóun með því að gefa afgöngunum gaum.

Matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári. Tæpur helmingur allrar matarsóunar á sér stað í frumframleiðslu matvæla en um 40% á heimilum. Lágmörkun matarsóunar er loftslagsmál, efnahagsmál og mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Það eru ýmsar leiðir færar til að vekja athygli á matarsóun og nýtingu afganga og bent er á fræðsluefni Saman gegn sóun sem finna má t.d. hér og fyrir atvinnulífið hér. Þar má finna umfjallanir um afganga, geymsluaðferðir og uppskriftir gegn sóun svo eitthvað sé nefnt.

Vinnustaðir geta t.d. lagt sérstaka áherslu á að elda úr afgöngum eða leyfa starfsfólki að taka afganga heim. Veitingastaðir geta hvatt viðskiptavini til að taka afganga með heim og heimilin geta leikið sér að því að skipuleggja innkaup vikunnar með afganga í huga eða farið í kaupstopp og nýtt það sem til er í skápunum. Möguleikarnir eru endalausir!

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan