Áformað var að hefja sumaropnun í Hlíðarfjalli í dag, 11. júlí, en kuldatíð með ofankomu í júní hefur leitt til þess að fresta þarf henni um viku. Er nú stefnt að því að lyfturnar verði ræstar fimmtudaginn 18. júlí nk.
Leysingar í fjallinu hafa tekið lengri tíma en í venjulegu árferði. Hálfgert vetrarveður var um tíma fyrri hluta júnímánaðar og því er enn mikil bleyta í jörðu og vegurinn upp í Strýtu til að mynda ófær. Það hefur því ekki með góðu móti verið hægt að undirbúa sumaropnun en vonast er til að sú vinna geti senn hafist af fullum þunga og næstu dagar gefi starfsfólki Hlíðarfjalls svigrúm til að gera svæðið klárt fyrir útivistarfólk sem vill njóta þess að spóka sig um svæðið.
Fjarkinn verður ræstur fimmtudaginn 18. júlí en ekki er ólíklegt að gangsetning Fjallkonunnar frestist enn frekar þar sem snjóalög eru enn talsverð á efra svæðinu. Af þessum sökum verður hugað að því að lengja sumaropnunina um viku í september ef aðstæður leyfa og aðsókn verður góð.
Sumaropnun Hlíðarfjalls gefur fólki kost á að nýta sér stólalyfturnar til að komast upp fjallið hvort sem vill fara í hjólagarðinn eða bara til þess að ganga um svæðið, njóta útivistar og útsýnisins sem getur verið stórfenglegt.
Fjarkinn mun ganga fjóra daga í viku. Á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 17-21, laugardögum frá kl. 10-17 og sunnudögum frá kl. 10-16.
Stefnt er að því að Fjallkonan verði opin fimm helgar í sumar á laugardögum og sunnudögum frá kl. 10-15.
Á heimasíðu Hlíðarfjalls má sjá gott kort af lyftu-, hjóla- og gönguleiðum.