Listdansarinn og Sumarlistamaður Akureyrar 2024, Sunneva Kjartansdóttir, býður Akureyringum og gestum upp á fjölbreytta viðburði í sumar.
Dans í opnu rými í Hofi
Alla þriðjudaga í júlí verður Sunneva með opnar ballettæfingar á svölunum í Hofi sem gestir og gangandi geta fylgst með. Æfingarnar eru kl.12-13. Sunneva stundar um þessar mundir nám við Copenhagen Contemporary Dance School og mun nýta rýmið í Hofi til þess að æfa ballett við stöng með nútímalegu ívafi rétt eins og hún gerir í skólanum úti. Svo tyllið ykkur í Hamragilið og njótið! Yfirlit yfir viðburðina í Hofi má sjá á heimasíðu MAK og á viðburðadagatali Halló Akureyrar.
3x3 Danssýning í Deiglunni
Þann 14. júlí kl. 18 býður Sunneva ásamt góðum gestum upp á danssýningu í Deiglunni í samstarfi við Listasumar og Gilfélagið. Þar munu dansarar sýna afrakstur vinnustofu sem fer fram dagana 12. til 14. júlí. Upplýsingar um viðburðinn má finna á viðburðadagatali Listasumars.
Opnir danstímar fyrir alla víðsvegar á Akureyri í sumar
Einnig mun Sunneva bjóða upp á opna danstíma fyrir almenning á Akureyri. Danstímarnir verða m.a. í Lystigarðinum og í Sundlaug Akureyrar. Um er að ræða einfalda danstíma sem öll gætu tekið þátt í hvort sem það væri standandi, sitjandi, ofan í lauginni eða á bakkanum. Engin fyrri dansreynsla er nauðsynleg! Sunneva stefnir svo að því að bjóða í danspartý á Akureyrarvöku þar sem teknar verða æfingar úr tímanum og samkvæmt Sunnevu verður lögð áhersla á að „hafa bara gaman og hrista sig smá“.
Viðburðirnir munu birtast fljótlega á viðburðadagatali halló Akureyrar og á viðburðadagatali Listasumars www.listasumar.is
Nánar um Sunnevu Kjartansdóttur
Sunneva er fædd árið 2002. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2021, framhaldsprófi á selló frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2022, sem og eins árs dansnámi í Kaupmannahöfn 2023, en leggur nú stund á þriggja ára dansnám í Copenhagen Contemporary Dance School.