Framkvæmdir við Tangabryggju. Mynd af Facebook síðu Vegagerðarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur úthlutað 43,8 milljónum króna til rafvæðingar hafna á Akureyri. Fjármunirnir nýtast við að undirbúa rafvæðingu Tangabryggju en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir.
Styrkurinn er hluti af fjárfestingaátaki stjórnvalda vegna heimsfaraldursins, en alls verður 210 milljónum veitt til orkuskipta í höfnum landsins.
Áhersla á fraktskip og minni skemmtiferðaskip
Rafvæðing er eitt af stóru verkefnum Hafnasamlags Norðurlands næstu misserin. Pétur Ólafsson hafnarstjóri segir að síðastliðin tvö ár hafi farið í að undirbúa vinnuna og kortleggja helstu möguleika. „Staðan er þannig í dag að togarar og minni skip eru tengd við rafmagn. Næstu skref eru flutningaskip og skemmtiferðaskip. Við höfum verið að kanna hvaða möguleikar eru færir í þessu, en þetta er gríðarleg fjárfesting,“ segir Pétur.
Nýframkvæmdir Hafnasamlagsins, svo sem á Tangabryggju og Torfunefsbryggju, taka mið af því að hægt verði að draga lagnir og raftengja fraktskip og minni skemmtiferðaskip í nánustu framtíð.
Miklar framkvæmdir í höfnum Akureyrar
Vinna við að lengja Tangabryggju til suðurs stendur sem hæst og segir Pétur að þar verði stigin fyrstu alvöru skrefin í þessa átt, því komi styrkurinn sér vel. Búið er að reka niður stálþil og er verið að steypa þekju. Stefnt er að því að taka Tangabryggju í notkun síðsumars, en eftir lengingu verður hún um 400 metra löng.
Í kjölfarið verður hafist handa við að byggja nýja Torfunefsbryggju. Áætlaður kostnaður við að raftengja minni skemmtiferðaskip er um 500 milljónir króna við hvora bryggju.
„Þessi styrkur er mjög vel þeginn og kannski fyrsta skrefið í þessu,“ segir Pétur en hann bendir jafnframt á að nú sé fyrst og fremst horft til þess að tengja fraktskip og minni skemmtiferðaskip. Kostnaður við að rafvæða stærstu skemmtiferðaskipin sé í kringum 1,3 milljarðar fyrir hverja bryggju. „Við höfum verið að bíða eftir útspili ríkisins. Þetta verður aldrei framkvæmanlegt nema með frekari aðkomu stjórnvalda eða með öðrum styrkjum,“ segir Pétur.