Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar

Mynd af heimasíðu Stjórnarráðs Íslands
Mynd af heimasíðu Stjórnarráðs Íslands

Nú þegar skólarnir eru byrjaðir er ekki úr vegi að minna á breyttar símareglur í grunnskólum Akureyrarbæjar.

Símafrí þýðir að símar eða önnur snjalltæki eru ekki leyfð á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum sem ákvörðuð verða í hverjum skóla. Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu og tækifæri til að setja símann á viðeigandi stað.

Ákveðið var að efna til víðtæks samráðs varðandi hugmyndir um samræmdar símareglur í grunnskólum Akureyrarbæjar. Starfshópur, samsettur af kjörnum fulltrúum, fulltrúum foreldra og ungmenna, starfsfólki skóla og starfsfólki af fræðslu- og lýðheilsusviði, vann að því að skoða kosti og galla samræmdra símareglna og símafrís í grunnskólum.

Tilgangurinn með símasáttmála er fyrst og fremst að skapa góðan vinnufrið í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla. Samhliða innleiðingu sáttmálans er gengið út frá því að starfsfólk skólanna sýni fyrirmynd og noti ekki síma á svæðum nemenda nema með einstökum undantekningum og þá vegna starfsins.

Símasáttmálinn tók gildi strax í upphaf skólaársins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan