Samningurinn var undirritaður fyrr í dag. Frá vinstri: Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Þórunn Sif Harðardóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, og Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar. Mynd: Ragnar Hólm.
Í dag var undirritaður samningur mennta- og barnamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna við Eyjafjörð um viðbyggingu fyrir verknámsaðstöðu við Verkmenntaskólann á Akureyri. Miðað er við að á lóð skólans verði byggð allt að 1.500 fermetra viðbygging.
Ríkissjóður greiðir 60% stofnkostnaðar við framkvæmdirnar en sveitarfélögin 40%. Áætlaður heildarkostnaður án stofnbúnaðar er áætlaður rúmlega 1,3 milljarður króna miðað við verðlag í febrúar 2024.
Eignarhlutföll í nýbyggingum verða: Ríkissjóður 60%, Akureyrarbær 29,92%, Fjallabyggð 2,97%, Dalvíkurbyggð 2,87%, Eyjafjarðarsveit 1,76%, Hörgársveit 1,17%, Svalbarðsstrandarhreppur 0,73% og Grýtubakkahreppur 0,57%.
Í viðbyggingunni, sem rís norðan við núverandi húsnæði VMA, verður kennsla í húsasmíði og bifvélavirkjun. Eldra húsnæði verður breytt þannig að aðstaða til náms í rafiðngreinum verður á einum stað í núverandi húsnæði byggingadeildar, gert er ráð fyrir að aðstaða í háriðn verði stækkuð, aðstaða í matvælagreinum verður bætt og vélstjórnarhermir verður færður. Ýmsar aðrar breytingar til að bæta aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk fylgir þessum húsnæðisbreytingum.
Í kjölfar undirritunar samningsins verður hægt að hefja hönnunarvinnu vegna viðbyggingarinnar og breytinga á núverandi húsnæði, ásamt því að sett verður upp tímalína fyrir framkvæmdir.
Þessi stækkun er hluti af átaki stjórnvalda til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum þar sem fer fram nám í iðn- og starfsnámi með það að markmiði að fjölga nemendum í iðn- og starfsnámi.