Samfló tryggir samfellu í þjónustu og samræmingu í málefnum flóttafólks

Í síðustu viku fór fram fundur á velferðarsviði um málefni flóttafólks þar sem verkefnið, Samræmd móttaka flóttafólks, Samfló, var kynnt og komið var að samtali við ýmsa aðila sem tengjast verkefninu.

Samræmd móttaka flóttafólks (Samfló) þýðir samræmt verklag og þjónusta við allt flóttafólk á landsvísu. Verkefnið á að auðvelda einstaklingum og fjölskyldum að taka sín fyrstu skref á Íslandi og tryggja samfellu í þjónustu og samræmingu allra aðila.

Samfló er verkefni sveitafélaganna, Vinnumálastofnunar og Rauða Krossins á Íslandi. Akureyrarbær skrifaði undir fyrsta samninginn árið 2021 en núgildandi samningur hljóðar upp á móttöku allt að 300 manns. Í dag eru 290 einstaklingar skráðir í Samfló.

Samkvæmt Drífu Björk Radiskovic, teymisstjóra í samræmdri móttöku flóttafólks, var fundurinn gagnlegur fyrir áframhaldandi samstarf við hinar ýmsu stofnanir og aðila innan bæjarins. „Þetta er í annað sinn sem svona fundur er haldinn en núna kynntum við samræmdu móttökuna fyrir Sjúkrahúsinu á Akureyri, HSN, Einingu Iðju, Félagi eldri borgara, Framhaldsskólunum, Símey, Rauða krossinum, Hjálpræðishernum, Velferðarsjóð Eyjafjarðar, Amtsbókasafninu og öðrum aðilum sem koma að velferðarmálum.“

Á fundinum var einnig rætt um þau verkefni sem eru í forgangi núna í haust, þar á meðal tómstundir barna, málefni eldri borgara og menntun og tómstundir ungmenna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan