Ritlistasmiðja með Yrsu Sigurðardóttur

Yrsa Sigurðardóttir
Yrsa Sigurðardóttir

Fimmtudaginn 26. október kl. 20 verður seinni ritlistasmiðja Ungskálda 2023 á LYST í Lystigarðinum. Að þessu sinni er leiðbeinandinn Yrsa Sigurðardóttir. Hún hefur sent frá sér sex barnabækur og nítján bækur fyrir fullorðna lesendur. Bækur hennar hafa verið þýddar á meira en þrjátíu tungumál og hafa prýtt vinsældalista víða um heim auk þess að njóta mikilla vinsælda á Íslandi. Yrsa hefur þrívegis hlotið íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann og einu sinni hlotið Íslensku barnabókaverðlaunin, auk þess að hafa unnið til erlendra verðlauna fyrir skrif sín.

Kvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist og því að kostnaðarlausu. Frábært tækifæri til að læra eitthvað nýtt, hitta önnur skáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk.

Veitingar í boði fyrir skráða gesti.
Skráning og nánari upplýsingar á ungskald.is

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.

Verkefnið hófst árið 2013 og er það eina sinnar tegundar á landinu. Staðið er fyrir ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Textarnir þurfa þó að vera á íslensku og vera frumsamið hugverk.

Til þess að styðja við áhugasama um að skila inn texta/textum er boðið upp á námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun, þar sem leiðbeinendur koma úr ólíkum áttum. Sem dæmi hafa Andri Snær Magnason, Kött GráPjé og Bryndís Björgvinsdóttir verið leiðbeinendur á síðustu árum.

Einnig hefur ritlistakvöldið slegið í gegn en þar er gestum boðið upp á veitingar, upplestur og tónlistaratriði. Tilvalin vettvangur til að mynda tengsl í gegnum ritlistina.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.


Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan