Ráðhús Akureyrarbæjar hefur stigið fyrsta Græna skrefið

Rut Jónsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Kristínar Helgu Schiöth. Mynd: Jón Þór Kristjánss…
Rut Jónsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Kristínar Helgu Schiöth. Mynd: Jón Þór Kristjánsson.

Ráðhús Akureyrarbæjar fékk í gær viðurkenningu fyrir að hafa náð fyrsta skrefinu af fimm í verkefninu Græn skref sem Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) halda utan um í landshlutanum.

Verkefnið er fyrir stofnanir og sveitarfélög sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og efla umhverfisvitund starfsfólks. Það felur í sér yfirferð á gátlista til að meta stöðuna og gera þær breytingar sem þarf til að ná skrefunum fimm.

Meðal þess sem Grænu skrefin taka til eru innkaup, samgöngur, flokkun og fleira. Skrefin eru í samræmi og styðja við tiltölulega nýsamþykkta umhverfis- og loftslagsstefnu bæjarins.

Öll 10 sveitarfélögin innan SSNE taka þátt í verkefninu. Starfsmenn SSNE taka út gátlista sem skrefin byggjast á og það var Kristín Helga Schiöth verkefnastjóri hjá SSNE sem afhenti Rut Jónsdóttur forstöðumanni hjá umhverfis- og sorpdeild Akureyrarbæjar viðurkenninguna í gær.

Amtbókasafnið hefur einnig hafið vinnu við Grænu skrefin og vænta má að fleiri vinnustaðir innan sveitarfélagsins skrái sig brátt til leiks.

Heimasíða Grænna skrefa geymir ýmsar gagnlegar upplýsingar um verkefnið.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan