Könnun á stöðu ungs fólks á Akureyri varðandi sumarvinnu hefur verið sett upp í þjónustugáttinni. Tilgangurinn er að afla upplýsinga um mögulega þátttöku í atvinnuátaki fyrir 18-25 ára.
Í aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar vegna efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa Covid-19 er gert ráð fyrir fjölgun í sumarvinnu fyrir ungmenni til að sporna við atvinnuleysi. Akureyrarbær hyggst einnig taka þátt í sérstöku átaki ríkisstjórnarinnar um sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri.
Unnið er að því að útfæra fyrirkomulag og umfang þessara verkefna. Könnunin er liður í slíkum undirbúningi og er stefnt að því að auglýsa atvinnuátakið nánar í maí.
Fólk á aldrinum 18-25 ára er beðið um að svara könnuninni sem er aðgengileg í þjónustugátt Akureyrarbæjar undir flipanum kannanir.
Athugið að einungis þeir sem eru á þessum aldri með lögheimili á Akureyri sjá könnunina og geta svarað henni. Hver og einn getur aðeins svarað einu sinni. Þetta er sannkölluð örkönnun, þrjár fullyrðingar sem þarf að velja á milli, og tekur örfáar sekúndur að svara.
Hægt er að svara könnuninni til mánudagsins 4. maí. Mikilvægt er að sem flestir svari þannig að ákvarðanir byggi á bestu upplýsingum um stöðuna.