Móðir 14 ára stúlku, sem hefur átt við mikla andlega erfiðleika að stríða, segir nýja nálgun í þjónustu við börn og barnafjölskyldur hafa reynst þeim vel.
Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tryggja að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengilið, og aðilar sem koma að málefnum barna – skólarnir, félagsþjónustan, heilbrigðiskerfið og barnavernd – vinna saman út frá þeirri forsendu að barnið sé hjartað í kerfinu.
Foreldrar stúlkunnar höfðu gengið um árabil með dóttur sína á milli þjónustuaðila í von um að fá aðstoð. „En þar sem hún var ekki með neina greiningu passaði hún hvergi inn í. Það var ekkert sem greip okkur. Nú erum við komin með málstjóra sem sér um okkar mál. Við förum reglulega á teymisfundi, og dóttir okkar tekur þátt í öllum ákvörðunum og hefur hlutdeild í sínu máli. Fyrir vikið hefur hún áttað sig á því að hún vill fá aðstoð, sem skiptir miklu máli. Þetta hefur orðið til þess að hún hefur náð að blómstra, þótt maður sé náttúrulega alltaf á varðbergi.“
Móðirin segir þeirra reynslu af nýju nálguninni jákvæða. „Við vorum alltaf á byrjunarreit, og hún var orðin svo þreytt á því að þurfa að segja sína sögu aftur og aftur. Þegar þetta var fyrst kynnt fyrir okkur, vissum við ekkert um þetta, en við vorum komin á þann stað að við vorum til í að reyna hvað sem er. Við, foreldrar hennar, höfðum bara verið ein í þessu, en nú vinnur allt kerfið saman. Okkar reynsla er að þetta virkar.“
Hægt er að kynna sér meira um farsældarlögin á vef Akureyrarbæjar og á vefnum www.farsaeldbarna.is.