Hér slútir heldur of mikill gróður yfir gangstétt.
Trjágróður er yfirleitt til mikillar prýði og ánægju fyrir okkur öll en ef hann vex út fyrir lóðarmörk þá geta hlotist af því óþægindi og jafnvel hætta fyrir gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur, auk þess sem það getur valdið tjóni á tækjum og bifreiðum.
Of mikill gróður getur hulið umferðarskilti, byrgt fyrir götulýsingu, torveldað gangandi og hjólandi vegfarendum að komast leiðar sinnar, og valdið ýmis konar vandræðum fyrir sorphirðu, slökkvilið og sjúkrabíla. Vakin er athygli á því að hæð undir gróður við gangstéttar verður að vera að lágmarki 2,8 metrar og við akbraut 4,50 metrar.
Til að tryggja umferðaröryggi og fyrirbyggja slys má krefja lóðarhafa um úrbætur og verði ekki orðið við þeim innan 10 daga má snyrta og klippa góður sem nær út fyrir lóðarmörk á kostnað lóðareigenda án frekari fyrirvara með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 gr. 7.2.2" þar sem segir: „Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“
Óskað er eftir góðri samvinnu allra um að tryggja almenningi greiða leið og skapa umhverfi sem dregur úr líkum á slysum. Allar nánari upplýsingar eru góðfúslega veittar hjá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar í síma 460 1134 en einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið jbg@akureyri.is.
Skorað er á lóðarhafa og umráðendur lóða að snyrta gróður sem nær út fyrir lóðarmörk að götum, gangstéttum og stígum svo hann valdi ekki óþægindum eða hættu.
Snyrtingu gróðurs skal lokið fyrir 15. september nk. en að þeim tíma liðnum verður gróður fjarlægður á kostnað lóðarhafa.