Frá undirritun samningsins. Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála Akureyrarbæjar, Jóna Jónsdóttir, formaður ÍBA, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Helga Björg Ingvadóttir, framkvæmdastjóri ÍBA.
Síðdegis í gær var undirritaður nýr samstarfssamningur Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) og Akureyrarbæjar til næstu tveggja ára.
Markmið samningsins er að íþróttastarf á Akureyri verði áfram kraftmikið, bæjarbúum til heilla. Í því felst að skapa sem bestar aðstæður til að reka starfsemi sem tryggir bæjarbúum öflugt íþróttastarf, einkum börnum og unglingum.
Samkvæmt samningnum hefur ÍBA eftirlit og umsjón með því að aðildarfélög sinni faglegu starfi í samræmi við íþróttanámskrá ÍBA, barna- og unglingastefnu ÍSÍ og lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og ÍBA. ÍBA hefur eftirlit með starfsemi íþróttafélaganna, veitir þeim faglega ráðgjöf og stuðning eftir bestu getu. ÍBA vinnur að því að efla ímynd íþrótta og heilbrigðs lífernis sem hluta af Heilsueflandi samfélagi og hvetur íbúa Akureyrarbæjar til að taka þátt í íþróttum og hreyfingu, t.d. í gegnum heilsueflandi verkefni. Stefnt er að því að sem flest aðildarfélög ÍBA verði fyrirmyndarfélög ÍSÍ.
Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar skal gera ráð fyrir styrkjum til ÍBA í fjárhagsáætlun hverju sinni með það fyrir augum að styðja við og efla íþróttastarf og starfsemi aðildarfélaga ÍBA. Framlag fræðslu- og lýðheilsuráðs er til reksturs skrifstofu ÍBA, styrkveitinga til íþróttafólks og er einnig í formi húsaleigu- og æfingastyrkja.
Við undirritun samningsins lýsti Jóna Jónsdóttir, formaður ÍBA, mikilli ánægju með það hvernig Akureyrarbær hefur staðið að íþróttamálum almennt í bænum, uppbyggingu mannvirkja og stuðningi við íþróttafélög; það skili sér í bættri lýðheilsu og aukinni þátttöku almennings í alls kyns íþróttaviðburðum, meiri útiveru og betri heilsurækt. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, kvaðst kunna að meta þessi jákvæðu ummæli því að þakka beri það sem vel er gert. Sveitarfélagið hafi ýmsum lögbundnum skyldum að gegna en þegar þeim sleppi þá hafi verið lögð á það rík áhersla að sinna vel íþróttamálum og efla félögin í bænum eins og frekast er kostur.
Samstarfssamning Akureyrarbæjar og Íþróttabandalags Akureyrar 2024-2026 má nálgast hér.