Nýjar ruslatunnur við öll heimili fyrir árslok

Vinna við að skipta út sorpílátum við öll heimili á Akureyri gengur að mestu samkvæmt áætlun og stefnt er að því að dreifingu nýrra sorpíláta ljúki í október eða nóvember.

Akureyringar hafa um árabil verið í fremstu röð hérlendis þegar kemur að flokkun úrgangs en nú er landsmönnum öllum skylt að fylgja fordæmi okkar.

Sveitarfélaginu er lögum samkvæmt skylt að gera íbúum kleift að flokka í fernt við heimili sín og er þar um að ræða blandaðan úrgang, lífrænan úrgang, pappír og plast. Almenna reglan er sú að þrjár tunnur verða við hvert heimili; ein tvískipt fyrir blandaðan úrgang og matarleifar, önnur fyrir pappír og pappa og sú þriðja fyrir plast.

Ef fólk telur aðra samsetningu sorpíláta henta betur í sínu tilviki, til dæmis ef mjög fáir eru í heimili og úrgangur því lítill heilt yfir, þá er öllum frjálst að hafa samband við starfsfólk sveitarfélagsins með því að senda tölvupóst á flokkumfleira@akureyri.is eða hringja í síma 460 1000 og leggja fram sínar óskir um aðra tilhögun. Þá mætti til dæmis hugsa sér að tvær tvískiptar tunnur væru við heimilið, ein fyrir blandaðan og lífrænan úrgang en önnur fyrir pappír/pappa og plast. Eftir sem áður verður öllum skylt að flokka í þessa fjóra flokka við hvert heimili.

Ný gjaldskrá vegna sorphirðu var samþykkt í bæjarráði 11. júlí sl. og tekur gildi um næstu áramót en sorphirðugjöld eru innheimt með fasteignagjöldum.

Allar nánari upplýsingar um nýju sorpílátin er að finna hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan