Mynd af vef www.farsaeldbarna.is
Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi.
Lögin tryggja að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu. Þar geta þau fengið aðstoð við að sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana, á öllum þjónustustigum. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá félagsþjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.
Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni. Lögin eiga að tryggja að börn og foreldrar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum.
Á vef Akureyrarbæjar er hægt að finna nánari upplýsingar um farsældarlögin ásamt upplýsingum um tengiliði bæjarins sem aðstoða við að sækja þjónustu við hæfi.
Farsæld: Með farsæld er átt við aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðislegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.
Nánar á vef farsældar barna.