Norræn vinabæjarráðstefna um leikskólamál í Hofi

Frá ráðstefnunni í Hömrum í Hofi.
Frá ráðstefnunni í Hömrum í Hofi.

Dagana 28. og 29. september fer fram í Hofi árleg leikskólaráðstefna norrænu vinabæjanna Akureyrar, Ålesund, Lathi, Randers og Vesteräs. Þetta samstarf hófst árið 2001 og hafa verið haldnar leikskólaráðstefnur síðan þá. Þemað að þessu sinni er “Leikskóli fyrir alla”. Á ráðstefnunni eru 120 kennarar leikskólabarna.

Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, setti ráðstefnuna og síðan tók Anna Jóna Guðmundsdóttir, skólasjóri Tröllaborga, við keflinu og skemmti hópnum með söng.

Aðalfyrirlesari er Svava Björg Mörk, aðstoðarprófessor við Háskólann á Akureyri. Erindi hennar fjallaði um menntun yngstu barnanna, hvernig hún fer fram og hvaða hlutverki leikur barna gegni í menntun þeirra og vellíðan. Svava Björg varpaði fram spurningu um það hvernig menntaumhverfið getur styrkt kennara yngstu barnanna í að byggja upp skapandi og styðjandi námsumhverfi fyrir þau og fjallaði einnig um mikilvægi menntunar kennara leikskólabarna.

Í dag og á morgun halda fulltrúar norrænu vinabæjanna vinnustofur í leikskólum bæjarins þar sem fjallað er um efni sem tengist þema ráðstefnunnar.

Ráðstefnunni lýkur á morgun með innleggi frá Ástu Katrínu Helgadóttur, íþróttakennara, um hið svokallaða YAP-verkefni (Young Athlete Project) sem Special Olympics á Íslandi hóf að innleiða fyrir fáeinum árum. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfiþjálfun ungra barna. Sérstakur markhópur er börn með sérþarfir en efnið hentar öllum börnum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan