Menntasmiðjan á Akureyri

Nú, að loknum sumarleyfum er starfsemi Menntasmiðjunnar á Akureyri að fara í gang af fullum krafti og  mikill erill eins og í flestum menntastofnunum á þessum tíma árs. Líkt og undanfarin ár er helsta verkefnið Menntasmiðja kvenna, sem var upphafsverkefni Menntasmiðjunnar haustið 1994 og því er varla  til sú manneskja hér í bæ sem ekki þekkir einhverja konu sem hefur stundað nám í Menntasmiðju kvenna, eða hefur numið þar sjálf, en  þar hafa numið nálægt 270 konur. Námið í  Menntasmiðju kvenna er þríþætt: Sjálfsstyrking, hagnýt fög og skapandi fög.

Starfs-og námskynning er hluti námsins. Námið er sérstaklega sniðið að þörfum  kvenna og miðar að því að auka lífshæfni. Það nýtist  vel fyrir þær konur sem standa á tímamótum eða eru að takast á við krefjandi breytingar í lífinu. Einnig er Menntasmiðjan góður undirbúningur fyrir hvers konar starf eða frekara nám.

Atvinnulausar konur, öryrkjar, ungar mæður og barnshafandi konur hafa forgang, en þess utan er námið opið öllum konum. Námið hefst 3. september n.k. og stendur til 10. desember. Kynningarfundur verður haldinn í Menntasmiðjunni, Glerárgötu 28, 3. hæð, mánudaginn 25. ágúst kl. 16:00, og er öllum opinn. Innan vébanda Menntasmiðjunnar á Akureyri er nú rekin  Alþjóðastofa, sem er fræðslu- og þjónustumiðstöð fólks af erlendum uppruna. Alþjóðastofa sér m.a. um skipulagningu námskeiða og fræðslu, ráðgjöf og margt fleira sem viðkemur málefnum nýbúa og útlendinga á Akureyri. Á vorönn 2003 varð u.þ.b. 100% aukning  á aðsókn á íslenskunámskeið frá haustönn 2002 og er búist við enn frekari aukningu nú á haustönn. Menntasmiðjan sér einnig um fullorðinsfræðslu fyrir þá flóttamenn sem til Akureyrar komu í mars s.l. og er hópurinn vel á veg kominn í  íslenskunámi. Á árinu 2003 verða tvær gerðir af Menntasmiðjum í boði; Menntasmiðja kvenna sem hefst 3. september og Menntasmiðja unga fólksins en það er smiðja fyrir fólk á aldrinum 17-25 ára. Í maí s.l. útskrifuðust 10 nemendur úr þessari smiðju og mun hún aftur verða haldin á vorönn 2004. www.menntasmidjan.is

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan