Skipulagslýsing vegna breytinga á skipulagi svæðis við Spítalaveg og Tónatröð hefur verið í kynningu frá 15. desember. Í síðustu viku, 12. janúar, rann út frestur til að senda inn ábendingar um skipulagslýsinguna.
Skipulagslýsing er í raun lýsing á verkefninu og þar með fyrsta skref í skipulagsferlinu, þar sem fram koma upplýsingar um helstu áherslur og markmið, forsendur, umhverfismat og rannsóknir, samráð, kynningu og fleira. Fólk var hvatt til að koma á framfæri ábendingum, ýmist í gegnum sérstakt ábendingaform á heimasíðu bæjarins, netfang eða með bréfpósti.
- Sjá líka: Vefsvæði með helstu upplýsingum um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar
Margar og fjölbreyttar ábendingar
Samtals bárust 113 ábendingar við skipulagslýsinguna og eru þær af ýmsum toga. Fyrirferðamestar eru ábendingar sem snúa að umfangi bygginga á svæðinu og áhrifum á ásýnd eldri byggðar, sem og ábendingar sem snúa að umferðarmálum, mögulegri skriðuhættu og stjórnsýslu bæjarins við ákvörðun um að fara í breytingu á skipulagi.
Öllum þeim sem sendu inn ábendingu er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag. Ábendingarnar verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu málsins ásamt athugasemdum frá umsagnaraðilum eins og Skipulagsstofnun, Minjastofnun, hverfisnefnd Brekku og Innbæjar, Norðurorku, Isavia og Veðurstofunni.
Næstu skref
Það sem gerist næst er að skipulagsráð og bæjarstjórn þurfa að taka afstöðu til áframhaldandi skipulagsvinnu byggt á innkomnum ábendingum og umsögnum. Nú í vikunni bárust niðurstöður jarðvegsrannsókna á svæðinu og hafa þær þegar verið sendar Veðurstofu Íslands til umsagnar. Veðurstofan er sá óháði aðili sem sér um að meta hvort að framkvæmdir á þessu svæði geti orðið fyrir eða jafnvel haft neikvæð áhrif á ofanflóð og skriðuhættu.
Þá hafa verið í gangi mælingar á umferð á nokkrum stöðum í nágrenni við framkvæmdasvæðið og verða þær upplýsingar nýttar til að meta vandlega áhrif skipulagsbreytinganna á umferð til og frá svæðinu. Hefur verkfræðistofan Mannvit verið fengin til að meta áhrif skipulagsbreytinganna á umferð.
Næsti fundur skipulagsráðs verður 26. janúar nk. og verða þau gögn sem liggja fyrir á þeim tíma lögð fram til kynningar. Ákvörðun um áframhald málsins verður þó ekki tekin fyrr en að öll gögn liggja fyrir.
Hér má sjá hvar við erum stödd í skipulagsferlinu.