Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, verður opin á þriðjudagskvöldum í sumar með fjölbreyttri dagskrá. Þetta er viðbót við aðra þjónustu á vegum Lautarinnar.
Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, auka lífsgæði þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma og draga úr fordómum í samfélaginu. Akureyrarbær tók í september síðastliðnum yfir rekstur og þjónustu Lautarinnar sem hafði áður verið samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Rauða Krossins og Geðverndarfélags Akureyrar.
Samvera, útivist og fjölbreytt afþreying
Í Lautinni er lögð áhersla á að skapa heimilislegt og afslappað andrúmsloft þar sem gestir koma á eigin forsendum.
„Meðal þess sem er í boði er félagsleg samvera, göngutúrar og útivist. Hægt er að grípa í spil, púsla, lesa blöðin, fara í pílukast og horfa saman á íþróttaviðburði svo eitthvað sé nefnt, en auk þess er boðið upp á hádegisverð gegn vægu gjaldi,“ segir Ólafur Örn Torfason, forstöðumaður búsetuþjónustu geðfatlaðra.
Blásið til veislu 16. júní
Nú í sumar verður gerð tilraun til að hafa kvöldopnun einu sinnu í viku, á þriðjudagskvöldum kl. 18-22. Í hvert sinn verður auglýst ákveðin dagskrá, til dæmis tónleikar, spilakvöld, myndlist, slökunarnámskeið og fleira. „Fyrsta opnunin hjá okkur verður þann 16. júní og þá verður vegleg dagskrá í boði. Rúnar Eff kemur og spilar fyrir gesti og við blásum til grillveislu með öllu tilheyrandi,“ segir Ólafur.
Við sama tilefni verður sérstakt tómstundaherbergi formlega opnað. „Það var útbúið að hluta til fyrir ágóða sem við fengum af styrktartónleikum nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri sem voru haldnir á R5 í desember. Fjölmargir listamenn komu fram á tónleikunum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir,“ segir Ólafur.
Hér má skoða drög að kvölddagskrá sumarsins. Þetta er viðbót við aðra þjónustu Lautarinnar sem verður opin kl. 9:30 til 15:00 í sumar.
Hér eru nokkrar myndir af húsnæði og aðstöðu Lautarinnar í Brekkugötu: