Málverkið "Eldey Portrait of Iceland no 0001046" frá árinu 2008 eftir Jónas Viðar Sveinsson.
Á Akureyrarvöku, laugardaginn 31. ágúst kl. 15, verða fjórar sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Fríða Karlsdóttir – Ekkert eftir nema mýktin, Oliver van den Berg – Á svölunum, Jónas Viðar – Jónas Viðar í safneign og fræðslusýningin Grafísk gildi.
Klukkan 17 fara síðan fram þriðju og síðustu tónleikar sumarsins undir heitinu Mysingur í Mjólkurporti Listasafnsins en þá koma fram Pitenz, Skandall og Þorsteinn Kári. Dagskrá dagsins lýkur loks með gjörningi Yuliana Palacios og Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur kl. 20 og 21.00. Í tilefni Akureyrarvöku verður Listasafnið opið til kl. 22 og enginn aðgangseyrir.
Mjúk áferð Fríðu
Fríða Karlsdóttir útskrifaðist af myndlistarbraut Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam í Hollandi 2020. Hún býr og starfar á Akureyri, þar sem hún er hluti af sjálfstæða listhópnum Kaktus, sem stendur fyrir margs konar menningarstarfsemi í Ketilhúsinu á neðstu hæð Listasafnsins.
Fríða vinnur með sögusagnir í gegnum blandaða miðla, vídeóverk, skúlptúra, textaverk og ýmiss konar handverk. Verk hennar líkjast oft náttúrulegum fyrirbærum, þau innihalda sterkar táknmyndir og þannig dramatíserar hún hversdagsleikann og segir frá einlægum upplifunum. Fríða hefur sýnt bæði hér á landi og erlendis.
Oliver van den Berg situr á svölunum
Oliver van den Berg hefur getið sér góðan orðstír með skúlptúrum og innsetningum byggðum á tæknilegum tólum, s.s. flugritum, stjörnuvörpum, myndavélum og hljóðnemum. Saga tækninnar á tuttugustu öld, sem og dægurmenning nútímans og spurningar er varða félagslega raunhæfa samgöngumáta, eru þættir sem koma fram í verkum hans sem hornsteinar félagslegrar samheldni.
Þó að þessi verk virðist innihalda eftirlíkingar af raunverulegum hlutum, eru þeir raunar gerviblendingar sem flakka á milli þess upprunalega og eftirlíkingarinnar. Það er ekki fyrr en endurgerðin er ígrunduð sem við gerum okkur grein fyrir hversu kirfilega flækt við erum í slíka hluti; vensl sem við felum í skáldskap og frásögnum svo hægt sé að þykjast hafa vald yfir þeim. Í strípuðum einfaldleika sínum er þetta hins vegar ennþá hulin ráðgáta.
Oliver van den Berg er frá Essen í Þýskalandi, en býr nú og starfar í Berlín. Fyrir þessa sýningu mun hann skapa sérsniðin verk fyrir svalirnar á Listasafninu.
Jónas Viðar í safneign
Jónas Viðar Sveinsson (1962-2013) stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1983-1987 og framhaldsnám við Accademia di Belle Arti di Carrara á Ítalíu 1990-1994. Hann útskrifaðist með hæstu einkunn og flutti að námi loknu aftur til Akureyrar eftir stutt stopp í Reykjavík. Hann var með vinnustofu í Listagilinu og starfrækti Jónas Viðar Gallerí í því rými er nú hýsir Mjólkurbúðina, sal Myndlistarfélagsins. Jónas var virkur í sýningarhaldi, kenndi við Myndlistaskólann á Akureyri og vann ýmis verkefni fyrir Leikfélag Akureyrar. Hann flutti til Reykjavíkur 2011, vann áfram að myndlist og rak Jónas Viðar Gallerí í bakhúsi við Laugaveg 49. Hann hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og erlendis og tók þátt í fjölda samsýninga.
Á ferlinum gerði Jónas ýmsar tilraunir í myndlist. Í elstu verkunum er fígúratífur mannslíkaminn áberandi, en síðar urðu kyrrð og fegurð í íslensku landslagi alls ráðandi; sjóndeildarhringurinn, hafið, land, fjöll og eyjar. Nokkurn fjölda verka eftir Jónas er að finna í safneign Listasafnsins á Akureyri og má sjá hluta af þeim á þessari sýningu.
Grafísk gildi
Orðið grafík kemur úr grísku og þýðir að skrifa, teikna eða rista. Notaðar eru ýmsar mismunandi aðferðir við gerð grafíklistaverka og hefur hver aðferð sín ákveðnu einkenni og eiginleika. Sérstaða grafíkverka felst í möguleikum þeirra til fjölföldunar, þ.e.a.s. gera mörg eintök af sömu mynd.
Markmið sýningarinnar er að fræða safngesti um grafíklistina og kynna valin grafíkverk úr safneign Listasafnsins. Verkin eru af ýmsum toga og eftir ólíka listamenn, bæði innlenda og erlenda. Þá gefst safngestum einnig tækifæri til að doka við í sýningarrýminu og skapa sína eigin list í hvetjandi umhverfi. Að skapa í listasafni er einstök upplifun og nota má verkin á veggjunum sem innblástur í eigin sköpun, blanda saman litum, línum, formum og áhrifum úr ólíkum verkum.