Jólakveðja frá vinabænum Randers

Trjástubburinn í Randerslundi.
Trjástubburinn í Randerslundi.

Öðru sinni skiptast vinabæirnir Akureyri og Randers í Danmörku á myndböndum með jólakveðjum. Sá háttur var fyrst hafður á í fyrra þegar ákveðið var að hætta að senda jólatré frá Randers sjóleiðina til Akureyrar. Það var gert til að minnka kolefnissporið og er okkur um leið áminning um að nýta þau gæði sem finna má í nánasta umhverfi okkar. Tréð sem nú stendur á Ráðhústorgi á Akureyri var því fundið í bæjarlandinu og er bæði reisulegt og fallegt.

Í Randers verður nú árlega plantað tré til marks um ævarandi viðáttu sveitarfélaganna tveggja og með tíð og tíma verður þar til lítill, fallegur skógarlundur. Á Akureyri var slíkt hið sama gert í fyrsta sinn í liðinni viku og um leið tekin upp lítil myndbandskveðja til Randersbúa. Þar bar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, íbúum Randers hlýjar jólakveðjur. Upptaka fór m.a. fram við göngustíg sunnan Krókeyrarnafar þar sem kemur til með að verða sérstakur Randerslundur.

Trjástubb hefur verið komið fyrir í Randerslundi. Í hann voru grafnar útlínur Danmerkur og punktur settur á kortið þar sem Randers er að finna. Á stubbnum er skilti sem á stendur: "Randers í Danmörku hefur verið vinabær Akureyrar frá því í síðari heimsstyrjöld. Í áraraðir hafa íbúar Randers sent Akureyringum jólatré sem sett hefur verið upp á Ráðhústorgi á aðventunni en í þágu loftlagsmála hefur sá siður verið aflagður. Randersbúar gróðursetja nú tré í sérstakan lund sem helgaður er Akureyri og við gerum slíkt hið sama hér í Randerslundi. Þetta er táknrænt og til marks um ævarandi vináttu bæjanna tveggja."

Vinabæjarkeðja á milli Akureyrar, Álasunds í Noregi, Lathi í Finnlandi, Randers í Danmörku og Västerås í Svíþjóð var stofnuð árið 1940 en aðild Akureyrar að henni var formlega samþykkt árið 1953. Samstarfið hefur verið stöðugt og grundvallast á föstum árlegum fundum og mótum en einnig á óformlegri og tímabundnum samskiptum félaga og hópa innan bæjanna.

Það er Torben Hansen, borgarstjóri danska vinabæjarins Randers, sem sendir íbúum Akureyrar jólakveðju í meðfylgjandi myndbandi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan