Evrópska samgönguvikan stendur nú yfir en í fyrra hóf starfsfólk Vistorku að meta daglega veðrið á leið sinni til vinnu, kalla það samgönguveður og birti um það upplýsingar á heimasíðunni vistorka.is.
Akureyri.is komst í gagnagrunn fyrir samgönguveðrið á heimasíðu Vistorku og þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að sagan um að það sé alltaf gott veður á Akureyri virðist eiga við rök að styðjast og því oftar en ekki óhætt að skilja bílinn eftir heima. Rúmlega 80% tímans var veðrið nógu gott til að þykja hentugt til göngu og hjólreiða. Í tæplega 20% tilfella þótti heppilegra að taka strætó eða fara keyrandi og í aðeins tæplega 1% tilfella var ekki hundi út sigandi og því skynsamlegast að vinna heima ef það var mögulegt.
Bíllausi dagurinn er á morgun. Veðurspáin er góð fyrir daginn. Logn eða hægur vindur, lítil úrkoma og hiti 1 til 4 gráður. Það má því búast við fínu samgönguveðri á morgun til að ganga, hjóla eða taka strætó.
Svo má ekki gleyma því að á morgun munu rafskútuleigurnar Hopp og Skutla fella niður startgjaldið og með strætóferðinni fylgir boðsmiði í sund síðar um daginn.
Það er alltaf hlýtt og frítt í strætó!