Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands ásamt Bergmanni Guðmundssyni og Hans Rúnari Snorrasyni á Bessastöðum í gærkvöldi.
Myndin er tekin af vefnum forseti.is
Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær. Verðlaunin voru upprunalega stofnuð til að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á því góða og metnaðarfulla starfi sem stundað er í skólum og frístundastarfi.
Hvatningarverðlaunin í ár hljóta þeir Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.
Í umsögn um framlag þeirra segir meðal annars: Þeir hafa verið einstakar fyrirmyndir í notkun á rafrænum verkfærum sem gera líf nemenda, foreldra og skólafólks auðveldara og skilvirkara.
Akureyrarbær óskar þeim hjartanlega til hamingju!