Frá fundinum í Brekkuskóla í gær.
Í gær fór fram í Brekkuskóla fyrsti hverfisfundur ársins í Akureyrarbæ og var hann einkum ætlaður íbúum Neðri-Brekkunnar og Innbæjar þótt allir væru að sjálfsögðu velkomnir. Ágætlega var mætt á fundinn og umræður nokkuð líflegar.
Það sem íbúar hverfisins kunna helst að meta við nærumhverfi sitt er hversu stutt er í alla þjónustu og hversu grænt og gróðursælt hverfið er. Þegar talið barst að því sem helst þarf að bæta þá nefndi fólk til að mynda umferðaröryggi og skólalóð Brekkuskóla.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, opnaði fundinn en síðan tóku við almennar umræður á borðum í salnum þar sem bæjarfulltrúar hlýddu á mál íbúa hverfisins og skráðu niður þær hugmyndir, umkvartanir, lof og last, sem fram komu í umræðunum.
Niðurstöðum verður síðan komið áfram í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frekari úrvinnslu.
Næsti fundur verður haldinn klukkan 17 í dag í Síðuskóla og er skorað á íbúa hverfisins að fjölmenna og taka þátt í umræðunum.
Hvað er gott við Síðuhverfi og hvað mætti helst bæta?
Boðið verður upp á léttar kaffiveitingar.