Húllasmiðja á Minjasafninu.
Barnamenningarhátíð 2024 er lokið en hún stóð allan aprílmánuð á Akureyri. Dagskráin hefur verið stútfull af litríkum og fjölbreyttum viðburðum, gefandi viðfangsefnum og uppákomum fyrir börn á öllum aldri.
Smiðjur síðustu daga hafa að miklu leyti snúist um umhverfið og endurnýtingu þar sem börnin hafa m.a. lært að sá fræjum til framtíðar, smíða skartgripi úr endurunnu efni og búa til bývaxpappír.
Tónlistar- og framkomuhæfileikar barna hafa einnig fengið að skína. Spilað var á lútu og gítar í Akureyrarkirkju og Suzukudeild Tónlistarskólans á Akureyri hélt tónleika með ýmsum uppákomum. Fjöldi barna steig á stokk í Hæfileikakeppni Akureyrar, sýndi dans, söng af hjartans list og sýndi hvað í þeim býr. Yngri blásaraveit tónlistarskólans fagnaði sumri í fallegu vorveðri sumardaginn fyrsta á meðan STEPS Dancecenter sýndi dansatriði og Stelpuhljómsveitin Skandall hitaði upp fyrir Emmsjé Gauta í miklu stuði.
Í myndaalbúminu að neðan gefur að líta myndir frá síðasta hluta hátíðarinnar. Þær tala sínu máli um þá gleði sem ríkt hefur á Barnamenningarhátíð 2024 á Akureyri.
Þátttakendum, viðburðastjórnendum, samstarfsaðilum og gestum er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag við að gera hátíðina eins ánægjulega og raun bar vitni.