Svipmyndir frá fyrri vinabæjarmótum.
NOVU, Norrænt vinabæjarmót ungmenna á aldrinum 16-20 ára, verður haldið á Akureyri í sumar frá 26. júní til 1. júlí. Þar kemur saman ungt fólk frá Ålesund í Noregi, Randers í Danmörku, Lahti í Finnlandi og Västerås í Svíþjóð ásamt heimamönnum.
Á mótinu gefst tækifæri til að kynnast krökkum frá hinum Norðurlöndunum í leik og starfi. Unnið verður í smiðjum að fjölbreyttum verkefnum og farið í skoðunar- og fræðsluferðir. Yfirskrift mótsins er "Getur menningarstarf fært okkur nær hvert öðru? - Rödd unga fólksins."
Sautján ungmennum frá Akureyri býðst að taka þátt í mótinu, nýta hæfileika sína og prófa eitthvað nýtt. Akureyrarbær á jafnframt í samstarfi við pólsku borgina Jelenia Góra og mun 10 þátttakendum í NOVU-verkefninu gefast kostur á að heimsækja Pólland í haust.
Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til föstudagsins 19. maí en sótt er um í þjónustugáttinni á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Nánari upplýsingar veitir Linda Björk Pálsdóttir í netfanginu lindabjork@akureyri.is eða síma 460 1231.