Stutt við þróun þverfaglegs rannsókna- og þróunarseturs

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Aðalheiður Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri AkureyrarAkade…
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Aðalheiður Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar. Mynd: Ragnar Hólm.

Akureyrarbær og AkureyrarAkademían endurnýjuðu í dag samstarfssamning sín á milli og gildir hann til næstu þriggja ára.

Markmið samningsins er að styðja við starfsemi AkureyrarAkademíunnar og þróun þverfaglegs rannsókna- og fræðaseturs á Akureyri. Jafnframt er markmiðið að styðja við einstaklinga sem vinna að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum með því að bjóða þeim upp á vinnuaðstöðu í húsnæði AkureyrarAkademíunnar.

Samningurinn kveður á um að AkureyrarAkademían hafi til reiðu vinnuaðstöðu í húsakynnum sínum fyrir tvo einstaklinga á hverjum tíma auk þeirra sem þar starfa fyrir. Starfsaðstöðunni fylgir skrifstofuhúsgögn, nettenging, aðgangur að prentara, sameiginlegri aðstöðu eins og fundaherbergi og eldhúsaðstöðu og helstu rekstrarvörum. Réttindi og skyldur einstaklinga eru í samræmi við þá samstarfssamninga sem AkureyrarAkademían gerir hverju sinni við aðra sem leigja vinnuaðstöðu hjá stofnuninni.

Gert er ráð fyrir að starfsaðstaðan verði auglýst laus til umsóknar til sex mánaða í senn fyrir einstaklinga sem vinna að verkefnum á sviði nýsköpunar eða frumkvöðlastarfs. Starfsaðstaðan er hugsuð sem styrkur til þeirra og verður án endurgjalds fyrir þá. Samningsaðilar munu auglýsa starfsaðstöðuna lausa til umsóknar og setja í sameiningu verklagsreglur um auglýsingar og hvernig verður staðið að vali á þeim einstaklingum sem fá aðstöðu hjá Akademíunni hverju sinni.

Samningsaðilar hafa sett verklagsreglur um auglýsingar og hvernig verður staðið að vali á þeim einstaklingum sem fá inni hjá Akademíunni hverju sinni og þær má kynna sér hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan