Dagana 13. og 14. ágúst voru haldnir endurmenntunardagar fyrir grunnskólakennara og -stjórnendur á Eyjafjarðarsvæðinu. Um er að ræða vettvang fyrir starfsfólk skólanna til að dýpka faglega þekkingu, efla samheldni og auka samstarf innan skólasamfélagsins við Eyjafjörð. Boðið var upp á fjölbreytta fræðslu og námskeið um ýmis viðfangsefni sem tengjast námi og kennslu, farsæld og velferð nemenda og starfsfólks í grunnskólum.
Viðburðurinn fór fram í Háskólanum á Akureyri og var skipulagður af undirbúningshópi á vegum fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Þátttakan hefur aldrei verið eins góð, en um 300 manns sóttu námskeiðin úr 16 grunnskólum á Eyjafjarðarsvæðinu.
Aðalerindin voru þrjú: Aðalheiður Sigurðardóttir flutti erindi um erfiða hegðun og hvað það er sem getur legið að baki henni, Linda Rós Rögnvaldsdóttir sagði frá vinnu starfshóps sem unnið hefur að því að kortleggja, greina og draga úr skólaforðunarvanda meðal nemenda á grunnskólastigi á Akureyri, og Bergþóra Þórhallsdóttir fjallaði um hvernig Kópavogsbær hefur unnið að námskrá á stafrænu læsi og sagði frá verkefninu Vitundin, sem snýr að fræðslu í stafrænu læsi og stafrænni borgararavitund. Hægt er að sjá frekari upplýsingar um námskeiðsframboðið á vef msha.
Starfsfólk fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar þakkar starfsfólki skólanna innilega fyrir frábæra þátttöku og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri fyrir frábært samstarf við undirbúning og framkvæmd.
Smelltu á myndirnar að neðan til að sjá stærri útgáfu og fletta á milli þeirra.