Mynd: Anne-Lise Stangenes
Ferðamönnum fer fjölgandi í Grímsey og þar með talið einnig komum skemmtiferðaskipa en von er á 29 skipum í ár.
Ekki eiga allir gestir auðvelt með gang og þar sem engar almenningssamgöngur eru í Grímsey, brugðu hjónin Svafar Gylfason og Unnur Ingólfsdóttir á það ráð að kaupa lest til að keyra fólk um eyjuna.
Boðið er upp á akstur með nokkrum stoppum suður að vitanum og síðan að gamla kennileitinu um heimskautsbauginn. Lestin rúmar að hámarki 50 manns og tekur ferðin um eina og hálfa lukkustund með stoppum.
Lestin hefur nú þegar komið að góðum notum og var meðal annars ekið með farþega skemmtiferðaskipsins National Geographic Explorer í kvöldsólinni í gærkvöldi.
Til að bóka ferð með nyrstu og mögulega einu lest Íslands eða fá nánari upplýsingar sjá hér